17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

61. mál, eignarnámsheimild fyrir Ytri -Búðir o. fl. jarðir

Flutnm. (Skúli Thoroddsen):

Eg verð að játa, að eg skil ekki vel ræðu háttv. þm. V.-ÍSf. (M. Ó.), þar sem öll ræða mín fór einmitt í þá áttina, að sýna, að hér væri um fylstu almenningsheill að ræða.

En það er alls ekki nauðsynlegt, að það sé tekið fram í eignarnámsheimildarlögum, í hverju almenningsheillin, sem lögin byggjast á, sé fólgin. Það var að vísu eigi óvanalegt. í tíð einvaldskonunganna, að tilskipanirnar byrjuðu með »forsendum«, þar sem gerð var grein fyrir rökunum, er því væri valdandi, að tilskipunin væri gefin, en síðan löggjafarvaldið komst í hendur löggjafarþinganna, hefir þetta aldrei átt sér stað.

Háttv. þingmaður Vestur-Ísf. gerir og miklu meira úr en er, þegar hann talar um það, að hér ætli heill hreppur að taka sjálfan sig allan eignarnámi. Slíkt er að eins sagt út í bláinn, þar sem hér er ekki um annað að ræða, en eina stóra jörð (þ. e. Meirihlíð), og þrjú smákot (þ. e. Grundarhól, Ytribúðir og Árbæ).

Að lokum skal eg taka það fram, að eg er — eftir atvikum — ekki á móti nefnd, þótt eg að vísu álíti hana óþarfa, en eg treysti því þá, að hún geri alt, sem í hennar valdi stendur, til þess að greiða fyrir málinu, svo að það nái fram að ganga á þinginu.