17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

61. mál, eignarnámsheimild fyrir Ytri -Búðir o. fl. jarðir

Ráðherra (H. H.):

Eg skal játa það, að eg er ekki fyllilega kunnugur öllum kringumstæðum í þessu máli, en eftir því, sem eg veit frekast, hefir aldrei. neitt verið því til fyrirstöðu, að menn fengi að byggja verbúðir í Bolungarvík og komast þar að til veiðiskapar.

Eg álít mjög vafasamt, að það sé nokkur knýjandi almenn nauðsyn til að taka þessar jarðir eignarnámi. Hitt get eg skilið, að það sé mikil gróðsvon fyrir sveitarsjóð Hólshrepps og aðra, er standa bak við þessa málaleitan, að leggja þessar jarðir undir sig. En naumast mundu vertollarnir lækka við slík skifti.

Eg verð að vefengja, að stjórnarskráin heimili slíkt eignarnám, sem hér er farið fram á. Setjum svo, að bæjarstjórn Reykjavíkur færi fram á að fá Skildinganes alt tekið eignarnámi bæjarsjóði til handa, af því að þar er nú verið að byggja hafnarbryggju, sem getur orðið til óhagræðis fyrir bæinn með samkepni við höfnina, til beins gróða fyrir bæinn. Eg býst við, að hv. deild þætti sú málaleitun í meira lagi frekjuleg, og skal eg ekki lá henni það.

Eg álít alveg nauðsynlegt, að málið sé sett í nefnd, ef það er ekki felt strax, og þá þarf í þeirri nefnd að vera maður eða menn, með sérstakri lögfræðisþekkingu, auk háttv. flutningsmanns.