20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

74. mál, land til stækkunar á kirkjugarðinum í Reykjavík

Benedikt Sveinsson:

Það getur verið, að það sé ekki beint brot á orðum stjórnarskrárinnar, að fríkirkjumenn borgi hærra legkaup en þjóðkirkjumenn. En megnasta ranglæti er það, að þeir skuli fyrst þurfa að leggja til jörðina eins og hinir, og borga svo að auki. En jörðina leggja allir borgarar þjóðfélagsins jafnt til, þegar um þjóðjörð er að gera eða landssjóður kaupir grafreitinn, fríkirkjumenn, utankirkjumenn engu síður en þjóðkirkjumenn, og eiga því alveg sama tilkall til grafreitsins. Það kemur því að minsta kosti í bága við anda stjórnarskrárinnar, að þeir sé látnir bera þessa tvennskonar byrði. Það er ekki vanþörf á því, að nefnd athugi þetta, og þar sem ekki eru nógu skýr rök um það, þá verð eg að þessu leyti að taka í strenginn með háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.).