03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

74. mál, land til stækkunar á kirkjugarðinum í Reykjavík

Frams.m. (Sveinn Björnsson):

Það var þegar tekið fram við 1. umr. þessa máls, að ástæðan til þess, að frv. þetta er fram komið er sú, að kirkjugarðurinn hér í Reykjavík er að verða altof lítill. Það er ekki eftir meira svæði af honum, sem ógrafið er í, en svo, að ef sama graftrarþörf helzt framvegis, þá endist það í lengsta lagi eitthvað fram á haustið, eða í hæsta lagi til nýárs. Nefndin hefir sjálf gengið á staðinn og athugað þetta, og átt tal um það við umsjónarmann garðsins, Bjarna Matthiesen hringjara.

Hér þarf bráðra aðgerða við, einmitt meðan þetta þing situr.

Sú spurning var vakin í nefndinni, hvort landsstj. þyrfti að kosta þetta, en eins og sjá má á málinu, er endinn vafi á því, að hann er sem kirkjugarðseigandi skyldur til að sjá um stækkun kirkjugarðsins. Það er til autt svæði fyrir vestan garðinn, svo kallað Nýjatún, og eftir því, sem nefndin frekast veit, eftir skoðun á staðnum, og upplýsingum, sem hún hefir fengið um það, hvernig grafreitur þetta muni vera, þá má fá skák af túninu, sem heppileg sé fyrir grafreit, en ekki er víst að góður grafreitur sé í suðurhlutanum. Og þegar lengra dregur vestur á við, er sagt að klöpp sé undir, svo að þar sé ótækt að grafa. Það var ekki tími til að rannsaka þetta með borum, eða þá hreint og beint með grefti til reynslu.

Þegar tekið er tillit til þessa og hins, að þörfin eykst stöðugt, þá gæti orðið spurning um það, hvort ekki gæti komið til mála að fá annan kirkjugarð annarsataðar, t. d. í Austurbænum. Þéttbýlið eykst þar óðum, svo að ástæða gæti verið til þess, að hafa garðinn þar. En til að rannsaka þetta var ekki heldur tími. Jafnframt kom fram í nefndinni sú skoðun, að mjög æskilegt væri, að hér yrði stofnað til líkbrenslu, sem allra fyrst, og var öll nefndin á því, að það væri bæði mjög heilsusamleg og heppileg meðferð á líkum, enda er hún altaf að ryðja sér meira og meira til rúms í útlöndum.

Þessvegna fann nefndin ástæðu til þess, þótt hún væri eigi skipuð beint í því skyni; að rannsaka þetta atriði, og spurðist því fyrir hjá þeim, sem þegar hafa komið brenslunni á fót í Danmörku, um það, hvað slík stofnun mundi kosta í bæ eins og Reykjavík. Nefndin fekk það svar, að slíkar stofnanir væri ódýrastar í Þýzkalandi, og mundi oss nægja stofnun, sem kostaði 30 þús. kr., þar af 10 þús. fyrir ofninn sjálfan. En þótt nefndin hafi þannig fengið upplýsingar um það, að oss væri þetta fyrirkomulag alls eigi ókleift, og þótt hún sé á einu máli um það, að það sé æskilegast, þá er það mál ekki svo undirbúið enn, að hún sjái sér fært að ráða þinginu til að ráðast í það í þetta sinn. Til þess þarf bæði sérstök lög um líkbrenslu og svo fjárveitingu.

Að öllu athuguðu er þá þetta niðurstaða nefndarinnar:

Í 1. lagi að hún veit ekki, hvort alt svæðið, sem bæta mætti við garðinn, er hæft til greftrunar.

Í 2. lagi, að til mála gæti komið, að gjöra nýjan garð á öðrum stað, eða að koma á líkbrenslu.

Leggur hún þar af leiðandi til, að heimildin, sem stjórninni er gefin, sé takmörkuð við 2 dagsláttur. Það ætti að nægja bænum í ein 8–9 ár, þótt engin breyting verði frá því, sem nú er.

Sumum nefndarmönnum sveið það í augum, að landastjórnin skyldi hvað eftir annað þurfa að leggja fé til stækkunar garðsins.

Útgjöldin fara hækkandi í hvert sinn, því að landið hækkar í verði hér í Rvík á hverju ári, og ilt þótti mönnum að fá ekkert í aðra hönd. Þessvegna leggur meiri hl. nefndarinnar það til, að hér verði aftur innleitt legkaup, 2 kr. fyrir börn, yngri en eina árs og 4 kr. fyrir aðra, og afnumin ákvæði sóknargjaldalaganna frá 1909.

Eg hefi nú þá athugasemd við það að gjöra frá mínu brjósti, að ef legkaup verður aftur leitt í lög, þá væri eðlilegast að halda gömlu reglunni um það, að ekkert sé goldið fyrir sveitarómaga, en ekki hefi eg komið fram með brt. um það. Það mætti ef til vill við 3. umr.

Af því að nefndin telur líkbrenslu svo æskilega, hefir hún leyft sér að koma með þessa ályktunartill.,en lengra vill hún ekki ganga í því máli að sinni.