07.08.1914
Neðri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

74. mál, land til stækkunar á kirkjugarðinum í Reykjavík

Guðmundur Hannesson:

Ef röksemdir mínar eru kallaðar staðhæfingar, má kalla alt staðhæfingar. Það þarf ekki annað, en að líta upp í kirkjugarð, til þess að sjá, að ríflegir blettir eru þó eftir, sem ekki hefir verið greftrað í.

Hinu atriðinu í ræðu háttv. frams.m. (Sv. B.), að kistur fúni hér seint, er fljótsvarað: Ráðið er að brenna kistuleifunum eins og annarsstaðar er gert.

Annars er ólíklegt, að minsta kosti að kistur frá síðari tímum fúni ekki, því að viðurinn í þeim er ekki svo góður. En ef bíða skal eftir því, að silfurskildir fúni, eins og háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) virðist ætlast til, þá má áreiðanlega bíða til eilífðar. Annars ætti rotnun að vera lík hér og í Englandi, en þar er þó sumstaðar langskemstur tími ætlaður þangað til aftur er grafið í grafir.

Ekki get eg gert mikið úr umsögn umsjónarmanns kirkjugarðsins hér; hann mun ekki þekkja aðra kirkjugarða en hérlenda, enda má sjá þess vott á kirkjugarðinum hér, sem er svo vanræktur, að oss er til stór-skammar.