14.07.1914
Neðri deild: 11. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

29. mál, löggjafarmál

Flutn.m. (Guðmundur Hannesson):

Þetta er meinlítil tillaga. Hún er framkomin fyrir tilmæli kjósenda minna og er sprottin af gamalli óánægju meðal almennings, út af því, að menn fá ekki að vita yfirleitt, hvað til stendur í löggjafarmálum, og geta lög verið sþ. svo á þingi, að almenningur viti ekki um þau í hinum fjarlægari héruðum. — Eg get hugsað mér það, að þessi tilmæli kjósenda minna standi í sambandi við hallærisvarnafrumvarpið, sem talsvert var deilt um norður þar. — Hér hefir áður, með réttu verið kvartað yfir því, að menn fengi ekki að vita, hvað stjórnin hefði í hyggju fyrr en á þing væri komið. – Eg álít þó minni hættu stafa af stjórnarfrumvörpum en af frv. þingmanna, því að stjórnin mun venjulega leita álits sýslunefnda og sveitarstjórna í málum sem almenning varða; en því er ekki að heilsa um frv. einstakra þingmanna. Það mundi oft heppilegt, að þingmannafrumvörp næði ekki fram að ganga á fyrsta þingi, en við slíkt verður ekki ráðið.

Þessi tillaga er engum til meins, en getur verið til bóta, ef stjórnin tekur hana til greina, sem eg vona. Það er viðbúið, að á næstu þingum verði tekin fyrir skattamál landsins og önnur mál, sem almenning varða. Stjórnin ætti þá að láta almenning vita, hvað fyrir henni vaki og hverra breytinga sé að vænta; þetta gæti verið gott fyrir stjórnina sjálfa, því að þar með gæti hún fengið margar viturlegar bendingar.

Vona eg því, að menn fallist á þessa tillögu. Ef stjórn vor tekur hana til greina, ætti hún að koma að nokkrum notum.