17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

28. mál, fækkun sýslumannsembæta

Framsögum. [Guðm. Hannesson]:

Það er algeng þjóðlygi, að hér sé svo mikill urmull af embættismönnum, að ekki sé dæmi til þvílíks annarstaðar, og að byrði sú, sem af þeim stafar sé miklu þingri hér en annarstaðar, hvort heldur sem miðað er við mannfjölda eða efni og ástæður. Þótt eg komi nú með þessa tillögu, við eg ekki, að menn ætli, að eg sé þessarrar skoðunar. En hvað sem því líður, þá er það víst, að öllum þjóðfélögum er það holt að hafa ekki fleiri starfsmenn í sinni þjónustu en nauðsynlegt er.

Nú hefir mér komið til hugar, að sum sýslumannsembættin gæti fallið niður, án þess að veruleg eftirsjá væri að , en af því að eg er ekki nógu fróður um þessi efni, þá hefi eg að eins viljað benda stjórninni á þetta til athugunar og því komið fram með þessa tillögu. Sérstaklega skal eg geta þess, að mér hefir virzt, sem Dalasýsla mundi geta sameinast Strandasýslu eða Snæfellsness- og Hnappadals sýslum. Þegar litið er á fólksfjölda, vegalengd og verzlun, virðist þetta ekki fráfælandi. Ef Dalasýsla væri sameinuð Strandasýslu, mundi fólksfjöldinn ekki vera nema um 4 þús. manna. Ef Dalasýsla væri sameinuð Snæfellsnessýslu, mundi yfirferðin vera nokkru minni, en fólksfjöldinn meiri, en þó ekki meiri en í sumum öðrum sýslum. Sömuleiðis mætti benda á, hvort ekki væri vegur að sameina Árness og Rangárvalla sýslur. Eg lít á þetta blátt áfram, og tek það fram, að eg fullyrði ekkert um, hvort þetta er hagkvæmt. Til þess er eg ekki nógu fróður. En þessi tillaga hefir við það að styðjast, að þótt fólksfjöldi sé mikill í þessum tveim sýslum, þá eru þessi héruð mjög góð yfirferðar og þar eru ekki nema tvö kauptún, að því er mér er frekast kunnugt.

Það kynni að mega koma með eina ástæðu móti fækkun sýslumannsembætta, sem sé þá, að nú höfum vér sett upp lögfræðingaskóla, og að það væri að narra þá menn, sem út í þann lærdóm leggja, að láta þá ekki fá embætti að loknu námi. En það er þó svikamylna, að setja fyrst upp lögfræðingaskóla vegna þess að hér eru nokkur embætti fyrir lögfræðinga og halda síðan óþörfum embættum við, af því að hér sé lögfræðingaskóli.

Annað atriði, sem ég ætlast til, að stjórnin taki til íhugunar í þessu sambandi, er aðgreining umboðsstarfa frá dómarastörfum. Þetta atriði hefir oft verið drepið á í riti. Eg er ekki svo kunnugur, að eg geti sagt um, hvort hægt sé að fá menn til að gegna umboðsstörfunum fyrir minna verð en sýslumenn fá nú fyrir þau störf, og þótt svo væri, mundi það ef til vill vera hæpinn sparnaður. Eg býst nú samt við, að sú verði niðurstaðan, að hægt muni vera að fækka þessum embættismönnum, en vafasamt, hvort það borgaði sig, að aðgreina umboðsvald og dómsvald. Eg hefi spurt ýmsa alþýðumenn um skoðun þeirra á þessu máli, en venjulega hafa þeir sagt, að þeir héldi ekki, að breyting í þessum efnum mundi vera til batnaðar.

Ef það er rétt álitið, að hér sé óþarfir starfsmenn, þá er sjálfsagt að kippa þeim burtu, sem ekki væri beint til gróða og gagns þjóðfélaginu, nema almenningur krefjist annars. Svo er um læknana. Læknar sjálfir hafa þótst sjá, að með þeim launakjörum, sem læknar hafa, muni enginn sækja um sum læknishéruðin. En þar sem almenningsvilji heimtar þessi læknishéruð og alþingi hefir fallist á þann vilja, þá er ekkert við þessu að segja.