17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

28. mál, fækkun sýslumannsembæta

Bjarni Jónsson:

Eg held, að hv. flutningsm. (G. H.) hefði ekki þurft að flytja þessa tillögu, úr því að hann vill að eins láta sameina Dala og Stranda sýslur og Árness og Rangárvalla sýslur. Nema hann sé ef til vill fús til að láta líka sameina t. d. Húnavatns og Skagafjarðar sýslur. Það er sennilegt, að sýslumaður í þessum sameinuðu sýslum geti komist yfir sýslurnar, þótt víðlendar sé, en hitt er vafasamt, hvort hann mundi geta gegnt störfum sínum. Að minsta kosti get eg hugsað mér, að þeir þyrfti þá meira skrifstofufé en nú.

Þvílíkt kák sem þetta, tel eg með öllu einskis vert. Þvílíkar tillögur eru að eins til þess, að tefja tíma þingsins og auka landssjóði kostnað með óþarfa skriftum á ræðum og prentun þeirra.

Ef farið er að breyta til í þessum efnum, þá væri það ærið skynsamlegra að taka til íhugunar, hvort ekki væri gerlegt að aðgreina umboðsstörfin frá dómarastörfum, þannig, að sýslumenn hefði að eins dómarstörfin á hendi. Með þeim hætti mætti fækka sýslumönnum, svo að þeir yrði að eins 4–6 á öllu landinu, og yrði þessir dómarar lægsti dómstóll.

Eg lít ekki á þetta frá fjárgróða sjónarmiði, heldur lít eg á hitt, að með þessu lagi yrði þeir betri dómarar, óháðari og sjálfstæðari en áður, meðan þeir höfðu á hendi tollheimtu og önnur störf, sem leiddi þá út í of náin viðskifti við almenning. Fjarri fer þó því, að eg með þessu segi, að dómar sýslumanna nú sé ranglátir, eða eg vilji ráðast á sýslumenn á nokkurn hátt. En við það, að sýslumenn væri leystir frá þeim störfum, sem óskyld eru dómarastörfum, mundu þeir standa betur að vígi, ef þeir væri lausir við afskifti þeirra, enda var svo litið á á síðasta þingi, að dómarar ætti ekki að vafsast í öðrum störfum; þótt sumir vildi ekki beint banna það lögum, töldu þó allir æskilegt, að svo væri.

Þetta held eg að væri ávinningur. Mig brestur kunnugleika til að segja nokkuð af eða á um það, hvernig þyrfti þetta fyrirkomulag nákvæmrar íhugunar. Innheimta hjá sýslumönnum má heita alltrygg, svo lítið hefir út af borið hingað til. Eg efast um, að eins trygt væri, að taka aðra til innheimtu; engan veginn mundi það verða tryggara, en ódýrara kann það að verða.

Þetta atriði þarf vendilega að rannsaka, því að það er mikils vert; en ef tillaga þessi, sem nú liggur fyrir, felur ekki þetta í sér, þá tel eg hana með öllu ónauðsynlega. Það eitt, að steypa saman sýslum, sem um langan aldur hafa verið sér, tel eg ótækt, enda mundi verða skoðanamunur um það, með hverjum hætti og hvar sú samsteypta ætti að vera. Ef á að sameina Dala og Stranda sýslur, má þá ekki eins sameina Reykjavík og Gullbringusýslu, eða Húnavatns, Skagafjarðar og Eyjafjarðar sýslur? Vegalengdin þar er ekki meiri en svo, að vel má á góðum hesti komast yfir sýsluna á 2 dögum.