17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

28. mál, fækkun sýslumannsembæta

Flutn.m. (Guðmundur Hannesson):

Mér kom það ekki alveg á óvart, þó að mótbárur heyrðist á móti þessari tillögu minni, að minsta kosti úr tveimur áttum (Dalasýslu og Árnessýslu). Eg hefi ekki vitað svo ómerkilegt prestakall, að þeir menn, sem hlut eiga að máli, hafi ekki orðið æfir ef það hefir átt að sameina öðru prestakalli. Menn taka líka tillit til kjósenda sinna, sem ekki er alls kostar láandi, og efast eg ekki um það, að þingmenn Dalasýslu og Árnessýslu gera það í þessu máli.

Eg kannast við, að tillaga mín eyðir meiri tíma en eg ætlaðist til. Eg hélt svo stutta og óbrotna ræðu, að hún gaf naumast tilefni til langra ræðuhalda.

Háttv. þm. Dal. (B. J.). tók það fram, að minst væri vert um fjárgróðann, sem af þessu gæti fengist og ef nokkur breyting væri gerð á sýslumannaembættunum, þá vildi hann að hún miðaði til þess eins að gera dómarastéttina óháðari og um leið óhlutdrægari. Eg verð nú að játa, að eg er ekki svo hátt upp hafinn, að eg tek mikið tillit til fjárgróða, og eg tel það blátt áfram skyldu þingsins, að afnema hvert það embætti sem óþarft er. Viðbót embættismanna er hvort sem er altaf viss; henni verður ekki komist.

Hvað hitt snertir, að óhugsandi sé, að einn maður geti annað sýslumannsstörfum í Strandasýslu og Dalasýslu, skal eg geta þess, að eg hefi leitað álits lögfræðings, sem nauðakunnugur er í Strandasýslu og sæmilega kunnugur í Dalasýslu um þetta efni. Eg fékk hiklaust það svar hjá honum, að ekkert væri að athuga við sameininguna frá hans sjónarmiði. Af því að þessi maður var með öllu óhlutdrægur, leit eg svo á, að ekki væri lítið gerandi úr því, sem hann legði til málsins.

Hvað það snertir að gera aðrar frekari breytingar á sýslumannsembættunum, setja t. d. fjórðungsdómara og aðgreina umboðsstörfin frá dómarastörfunum, eins og háttv. þm. Dal. (B. J.). talaði sérstaklega um, þá er þess að geta, að um þetta hefir verið rætt í mörg ár, en ekkert orðið úr framkvæmdum í þessa átt. Eg hefi átt tal við ýmsa leikmenn um þetta og virðast þeir telja öll vandkvæði á því. Slík embættasamsteypa mundi illa séð af þeim, sem hlut eiga að máli og erfitt að koma henni í framkvæmd. Erfitt getur orðið að ná í dómarana ef þeir verða einir fjórir. En þar sem ekki er útlit fyrir, að nein stórfeldari breyting í þessu efni verði gerð fyrst um sinn, þá er aldrei eðlilegt, að mönnum detti í hug, að minni endurbætur mætti gera.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) kom með undarlega rökfærslu í þessu sambandi. Hann sagði, að ekki mætti til að neinn Cæsar eða Napoleon væri í landstjórninni, rétt eins og þörf væri slíkra manna til þess að athuga þetta einfalda mál. En í sömu andránni segir sami háttv. þm. (E. A.), að hann mundi hafa fallist á till. ef hún hefði farið í þá átt að fela stjórninni að athuga alla embættisskipunina, embættislaunin og eftirlaunin, rétt eins og það væri miklu hægara verk. Eg vildi ekki vera svo stórtækur, hélt sem sé, að enginn Cæsar né heldur Napoleon væri í landstjórninni. Stórfeldari breytingar hygg eg að verði að bíða síns tíma, hversu æskilegar sem þær eru. En ef hægt væri þangað til að gera einhverjar einfaldari breytingar, sem gæti orðið til fjársparnaðar, þá er það alls ekki fyrirlitnigarvert.

Eg get ekki skilið, að till. mín eigi neitt skylt við kák. Annað sem um hefir verið talað verður ekki framkvæmt fyrst um sinn, enda mundi það verða mönnum viðkvæmt, ef til vill enn viðkvæmara en þó að fleiri eða færri embættum væri smátt og smátt steypt saman. Þó að tölu sýslumannaembætta væri fækkað, þá er það í fullu samræmi við fækkun brauðanna. Vera má, að ofmikið hafi verið gert að henni sumstaðar, en jafnvíst er, að það hefir verið keiprétt sumstaðar.