21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

28. mál, fækkun sýslumannsembæta

Framsögum. (Guðm. Hannesson). Eg get ekki stilt mig um, þó umræður sé orðnar lengri en eg bjóst við, að minnast á aðra þjóðlygi, en hún er sú, að þeir einir sé framleiðendur, sem rækta jörðina eða róa á sjóinn, en embættismenn lifi aftur af annara afla og sveita, en framleiði ekkert sjálfir. Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) gaf mér tilefni til þessa og átti eg sízt von á því úr þeirri átt.

Orð hans féllu á þann veg, að ef miða skyldi við fjármunalegan en ekki óbeinan andlegan gróða, þá mætti sjálfsagt kippa flestum embættismönnum burtu t. d. læknastéttinni og Háskólanum. Ekki hefir mér komið til hugar að meta einskis óbeinan andlegan hagnað, en hér er beinlínis oft að tala um ríflegan fjárgróða. Þjóðin heldur embættismenn í þeim einum tilgangi að græða á þeim, fyrst og fremst fé, oft líka annan andlegan hagnað. (t. d. presta). Ef þjóðinni er ekki beinlínis gróði að því að hafa einhvern starfsmann, á hann engan tilverurétt. Starf hans á þá þjóðin að leggja niður.

Það er ekki undarlegt þótt alþýðu manna sé þetta ekki ljóst, ekki sízt þegar embættismenn eru sífelt ófrægðir og taldir ómagar þjóðfélagsins. Mentaðir menn ætti að vita þetta.

Það ætti að vera öllum ljóst, t. d. að vér stofnuðum landsverkfræðingsembætti, til þess að græða meira en launum hans nemur, vér gerum það til þess að fá hentuga vandaða vegi, traustar steinbrýr eða járnbrýr í stað trébrúa, sem fúna og eyðast á fám árum sem ósérfróður maður mundi láta sér nægja með. Auðvitanlega af því að hann vissi ekki betur. Eg þekki starf læknanna og eg veit, hver dugandi læknir, sem mikið hefir að starfa, bjargar að meðaltali rúmlega 10 mönnum á hverju ári — menn, sem án læknishjálpar hlyti að hafa dáið, en verða albata og fá aftur fulla heilsu. Eg hefi haft gát á þessu ár eftir ár og ekki talið aðra sjúklinga en þá, sem eg hefði getað sannað fyrir hverjum alþýðumanni, að svo hefði verið ástatt um, sem eg hefi sagt. Ef mannslífið er metið á 500 kr., sem auðvitanlega er hlægilega lágt, þá er á þessu ári komnar 5000 kr., sem mun vera drjúgum meir en læknislaun eru að meðaltali.

Eg tel ekki vafa á því, að góður læknir sé framleiðandi, því að fyrir hans starf bætist þjóðfélaginu árlega álitlegur hópur manna, sem rær og slær, og það er beinlínis framleiðsla, sem er lækninum einum að þakka.

Eg skal rétt í örfáum orðum drepa á það, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði. Eg held, að misskilningurinn hafi ekki verið mikill hjá mér á Cæsar og Napóleon, sem hann setti í samband við till., en annars skal eg ekki gera það að deilumáli. — Það er talað um, að ekki megi hrúga slíkum stórmálum á stjórnina. Eg veit ekki, á hverju stjórnin ætti að hafa vit, ef ekki einmitt þessu. Í stjórnarráðinu sitja þó margir lögfræðingar og sumir af þeim gamlir og reyndir sýslumenn, og ætti þeim ekki að vera ókleift að sjá, hvað þessi breyting hefði í för með sér.

Það gladdi mig, að þessi háttv. þm. studdi mitt mál, þar sem hann sagði, að embættismenn væri ekki fleiri né dýrari hér, en í öðrum löndum. En þar sem hann telur kostnaðinn hér 7 á móti 20 í Danmörku, þá hlýtur hann að hafa tekið herinn þar með í reikninginn. En það má óhætt fullyrða, að með því að telja eins hér og þar, þá verða embættislaunin hálfu meiri þar en hér og eftirlaunin þreföld. Blöð vor sýna það, að alþýðan hér fer vill vegar í þessu, en hér í deildinni ætti menn að vita betur. Nú í endalok vertíðar ætla eg að segja það, að eg gleðst af því, að þessar löngu umræður hafa sýnt og sannað það eitt, að tillaga mín sé mjög góð. Væri hún samþykt má reiðanlega fækka að minsta kosti 2 embættum og spara um 5000 kr.

Um breyt. till. er það að segja, að eg hefi í sjálfu sér ekkert á móti henni, en tel hana verri og vafasamt, að komi að nokkru gagni. Satt að segja datt mér einmitt hún fyrst í hug, og hún hefir ýmsar góðar hliðar. Hv. ráðh. hefir sýnt það, er hann tók við völdum 1903, að hann er þeirri skoðun hlyntur, sem í henni felst. En þótt hann hafi nú setið tvisvar í ráðh.sessi eftir 1903, þá hefir hann ekki hreyft því máli, og sýnir það, að honum hefir fundist það erfitt viðfangs.

Dr. Valtýr Guðmundsson hefir einnig hreyft þessu oftar en einusinni, en aldrei hefir þó neitt orðið úr því. Margoft hefir verið á þetta minst, bæði í blöðum og á þingi. Eg hefi líka reynt að velta því fyrir mér, og þótt eg sé því ef til vill ekki vel vaxinn að dæma um það, þá verð eg að taka undir það, sem hv. 1. þm. S-Múl. sagði í sinni löngu ræðu um erfiðleika á þeirri tilhögun og tvísýnan sparnað. Eg legg þessvegna ekki mikið upp úr þessari óhjákvæmilegt, hvað sem frekari breytingum líður, að athuga hvaða embætti má afnema að skaðlausu.

Eina mótbáran móti þessu, sem nokkurs er virði, þótt lítið sé, er sú, að sparnaðurinn verði svo lítill, að það borgi sig ekki að eiga við þetta. Þótt ekki væri unnið við samsteypuna nema' svo sem 4500–5000 kr. á ári, þá sýndi það þegar, að tillagan væri réttmæt.

Laun fastra starfsmanna má skoða sem vexti af höfuðstól, og þá svöruðu þessir vextir til 100 þús. kr. höfuðstóls, eða því sem næst. Eg skil ekki í öðru, en að hv. deild kannist við það, að þetta er ekki einskis virði, og þegar vér þurfum sí og æ að vera að bæta við oss nýjum starfsmönnum, þá er full þörf að kippa burtu þeim af hinum gömlu, sem missast mega.

Eg sé, að hér eru nú svo fáir inni í deildinni, að atkv.gr. hefir ekki fulla þýðingu. En eg hefi þá skoðun enn, að ef mín tillaga verður samþykt, þá verði góður árangur af því, og þótt eg sé ekki á móti því, að hin till. verði sþ., þá, efast eg um, að hún komi að nokkru gagni.