21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

68. mál, útibú frá Landsbankanum á Austurlandi

Guðm. Eggerz:

Eg vil leyfa mér að styðja þessa tillögu. Mér er kunnugt um, að mönnum fyrir austan er það sérstaklega mikið áhugamál, að þessu útibúi verði komið á fót.

Háttv. framsögum. hefir nú tekið margt fram til stuðnings sínu máli, og er eg honum sammála, en vil þó bæta því við það, sem hann sagði, að Suður-Múlasýsla er miklu verr sett en Norður-Múlasýsla í þessum efnum. Eins og réttilega hefir verið tekið fram um hana, er þar hvergi hægt að fá peninga, nema hjá verzlununum, og það kemur mjög oft fyrir, þegar langt líður milli ferða, að þá eru þær líka blankar.

Það má benda á það, að Múlsýslingar kaupa oft mikinn fisk af trollurum og línuveiðurum, og þykir vera góður verzlunarvegur, en þessari verzlun stendur það mjög fyrir þrifum að hafa engan banka. Á Seyðisfirði er ólíkt hægara að verzla við útlendinga, því að þar hafa þeir banka, en Sunnmýlingar hafa engan, en til þess að geta verzlað á þennan hátt, er alveg nauðsynlegt að hafa peningastofnun sem næst sér.

Það er langt frá því, að eg geri það að kappsmáli hvar útibúið verður sett í Suður-Múlasýslu, hvort heldur að það verður sett á Norðfirði, Eskifirði eða Búðum, en hitt geri eg að kappsmáli, að það verði sett í Suður-Múlasýslu einhversstaðar. Mér sýnist það vera mjög ósanngjarnt að stofna tvö útibú á Seyðisfirði, en hafa ekkert í Suður-Múlasýslu.

Mér finst það satt að segja ekki ná nokkurri átt, sem mér heyrðist háttv. þingm. V.-Ísf. (M. Ó.) halda fram, að oss mætti standa á sama, hvar útibúið væri. Oss er lífsspursmál að hafa það einhversstaðar í sýslunni, en miklu hægara fyrir oss að ná t. d. til Norðfjarðar heldur en til Seyðisfjarðar. Ef háttv. þingmaðurinn þyrfti að ná í peninga í flýti, væri honum víst ekki alveg sama, hvort hann gæti fengið þá hér á staðnum eða þyrfti að fara norður á Akureyri til þess. Satt að segja get eg ekki álitið, að hægt sé að kalla það hreppapólitík, þótt vér förum þess á leit, að útibúið sé sett í Suður-Múlasýslu, þegar í Norður-Múlasýslu er annað útibú. En vitanlega verður það alveg á valdi bankastjórnar Landsbankans, hvar hún setur útibúið, það er ekki til neins að gera neina ályktun um það hér í deildinni, svo að í raun og veru er þýðingarlaust að vera að deila um þetta nú. En eg ber það traust til bankastjórnarinnar, að hún sjái, að það er sanngjarnt að setja útibúið í Suður-Múlasýslu en ekki í Norður-Múlasýslu.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) tók það fram, að útvegurinn væri nú mikið í höndum kaupmanna. Þetta er rétt. Menn alment sjá sér ekki fært að útvega sér mótorbáta nema með því, að snúa sér til verzlananna, því að hvergi er annarstaðar peninga að fá, en verzlanirnar vilja auðvitað hafa eitthvað fyrir snúð sinn og snældu, og því tekur það oft langan tíma, að báturinn borgi sig.

Ef nú bankaútibú væri í sýslunni og hægt væri að fá þar peninga, þá þyrfti ágóðinn ekki að renna í vasa verzlananna, en gæti runnið í vasa eigendanna sjálfra.

Eg skal taka það fram, að eg er mjög þakklátur háttv. þingm. V.-Ísf. fyrir að hann hafði bent á þetta.