04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

97. mál, líkbrennsla í Reykjavík

Guðmundur Hannesson:

Eg vil að vísu ekki leggja stein í götu þessarar tillögu, en mér finst hún þó samt óþörf. Ef menn vilja leita sér upplýsinga um þetta mál, þá þurfa menn ekki annað en að ganga hér upp á landsbókasafnið, því að þar er hægt að fá, að sjá ótal ritgerðir um þetta mál og skrá yfir allan kostnað og áhöld, sem nauðsynleg eru.

Allur almenningur trúir því, að gera megi svona bálfarir eða líkbrenslur ódýrari en greftrunina. Það tel eg mjög hæpið. Það sem eyðist af koks við hverja líkbrenslu, eru um 300 kgr., en þetta er minstur hluti kostnaðarins. Í Lübeck er líkbrenslufélag. Þar er kostnaðurinn 50 kr. fyrir félagsmenn en 60 kr. fyrir utanfélagsmenn. Eg býst við, að kostnaðurinn verði nokkuð líkur því, sem nú er við greftrunina með kistu og öllu saman. Sennilega þó heldur dýrara að brenna þegar öllu er á botninn hvolft.

Önnur ástæða til þess, að menn vilja heldur fá líkbrenslu, er sú, að greftruninni fylgi sýkingarhætta, sem geti orsakast af líkum þeim, sem dáið hafa úr næmum sjúkdómum, t. d. taugaveiki. Eg held, að óhætt sé að fullyrða, að engu slíku sé til að dreifa.

Þetta mál hefir verið rannsakað nákvæmlega af Kock og Petri, og þeir gera ekkert úr hættunni.

Nýjustu handbækur í heilbrigðisfræði segja, að í heilbrigðislegu tilliti sé enginn munur á jarðarförum og líkbrenslu.

Eg sé að vísu ekkert á móti því, að stjórnin sé beðin að afla upplýsinga um málið, en eg tel það óþarft, því að hver sem vill getur aflað sér þeirra af eigin rammleik, ef hann vill ómaka sig upp á landsbókasafn og biðja um bækur þar.

Annars skal eg taka það fram, að eg skil ekki, hversvegna þessi kirkja þarf að vera ómagi landssjóðs fremur en aðrar kirkjur á landinu, og hér á að styrkja Reykvíkinga til að koma líkum sínum í jörðina.