04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

97. mál, líkbrennsla í Reykjavík

Frams.m. (Sveinn Björnsson):

Eg bjóst ekki við, að þessi tillaga yrði að deilumáli, enda skildist mér raunar á háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.), að hann væri ekki beint á móti tillögunni. En út af því, sem hann sagði, er eg neyddur til að segja nokkur orð.

Háttv. þm. sagði, að hver maður, sem vildi, gæti sjálfur aflað sér upplýsinga um málið, þyrfti ekki annað en að fara upp á landsbókasafn og líta í bækur þar. Það er nú svo. Eg efast um, að hægt sé að nota skýrslur, sem finnast þar, svona alveg ómeltar. Mér þykir líklegt, að sníða þurfi málið eftir vorum högum.

Hann hélt því fram, að líkbrensluaðferðin mundi ekki verða ódýrari en jarðarfarir. Eg skal ekki um það segja, en það er kunnugt, að landlæknirinn, sem manna mest hefir rannsakað þetta mál, hefir komist að þeirri niðurstöðu, að líkbrensla verði ódýrari.

Eg skal ekki stæla við háttv. þingm. um málið frá heilbrigðislegu sjónarmiði, en víst er það, að ýmsir vísindamenn líta svo á, að líkbrensla sé hættuminni en greftranir. Auk þess eru margir fylgjandi því, að afnema þenna greftrunarmáta, sem nú tíðkast. af því, hversu óviðkunnanlegur hann er og ýfir átakanlega harma þeirra manna, er að hinum látna standa.

Um það atriði, sem háttv. þm, tók fram, að undarlegt væri, að landssjóður stæði straum af kirkjugarði Reykvíkinga, skal honum bent á það, að landssjóður er eigandi kirkjunnar og verður því lögum samkvæmt að kosta kirkjugarðinn. Þess vegna lá fyrir og var samþykt í gær frumv. til laga um stækkun á kirkjugarðinum, þar sem lagt er fyrir stjórnina að kaupa land til greftrunar hér.