05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

105. mál, baðefni

Flutn.m. (Jón Jónsson):

Vér flutningsmenn þessarar tillögu höfum komið með hana af því. að Coopers-baðefnin hafa ekki enn verið löggilt af landsstjórninni sem nothæf baðlyf hér á landi. Verið getur, að það sé ætlun stjórnarinnar að löggilda þessi baðefni. Það var af tilviljun, að umsókn barst ekki stjórnarráðinu fyrr en rétt nýlega.

Svarið var ekki komið í gær, og til þess að fá frekari fullvissu um, að stjórnin sinti málinu, þá þótti oss flutningsmönnum ástæða til að reyna að fá samþykki háttv. deildar til þess að skora á stjórnina að löggilda þessi baðefni. Það liggja hér fyrir áskoranir frá ýmsum mönnum um, að það leyfist að nota þau. Þau hafa reynst svo vel, að margir vilja með engu móti missa þau, og sýnir það, að lítil ástæða var til að synja mönnum um þau. Til enn frekari sönnunar því, að ekkert er á móti baði þessu að hafa, er það, að það er ódýrara en þau baðlyf, sem nú eru löggilt. Coopersbaðlyf kostar 2,50 kr. í 100 fjár, en hin 4,39, og er það talsverður munur, þótt það sé nú í rauninni ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er auðvitað, að baðlyfið sé gott og heppilegt til að þrífa féð, og jafnvel að það dugi til útrýmingar kláða, og það veit eg, að álitið er víða um land um Coopersbaðlyf, einkum duftið. Það er því engin ástæða til að útiloka það, og því óskum vér flutningsm., að háttv. deild samþykki þessa þingsályktunartillögu.