05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

105. mál, baðefni

Þorleifur Jónsson:

Eg þarf ekki að vera langorður, því að það er þegar búið að taka fram margt af því, sem eg ætlaði að segja, einkum af hv. 1. þm. Eyf.

Þessi tillaga er framkomin vegna þess, að víðsvegar út um land höfðu menn talið það sjálfsagt, að menn gæti fengið Coopersbaðlyf héðan af eins og hingað til.

En svo þegar auglýsing stjórnarráðsins kom, og þau vóru ekki leyfð, þá tókum vér þetta ráð, ekki sízt vegna þess, að þessi baðlyf eru nú hér til í verzlunum víða, og er hart að mega ekki nota þau nú, einkum þar sem auglýsingin kom svo seint, að erfitt verður að útvega önnur lögleyfð baðlyf víða hvar.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) þótti tillagan óljós, af því að um margar tegundir af Coopersbaðlyfjum er að ræða. Eg hefi nú orðið var við þrenskonar Coopers baðlyf. Eitt er duft, annað er lögur og hið þriðja er í stykkjum, sápukent efni.

Það er nú víst, að duftið hefir reynzt vel að því leyti, að það hefir varið óværð, og er að því leyti gott þrifabað. En því er ekki að neita, sem hv. þm. tók fram, að sumir álíta, eða eru hræddir um, að það grysji ullina, og því hafa ýmsir tekið það ráð, að blanda saman duftinu og sápunni, og veit eg til að mönnum hefir reynzt það ágætlega, og hefi ekki orðið þess var, að þá beri á ullarlosi, og virðist yfir höfuð hafa þá jafngóð áhrif á ullina, eins og t. d. kreólín og önnur þau baðefni, sem nú eru leyfð.

Þá talaði sami hv. þm. um það, hvort það væri tilætlunin, að stjórnin ætti að taka þessi lyf, þótt það væri á móti dýralæknisráði.

Það getur nú verið, að vér tillögumenn höfum ekki hugsað svo langt, en eg get varla ímyndað mér, að til þess komi, að dýralæknir hafi á móti því, þar sem það er svo þrautreynt að góðu áður, og þar sem það er bæði óskaðnæmt og eitt af hinum ódýrustu baðlyfjum. (Sig. Sigurðsson: En hví tók dýralæknir það ekki strax?). Eg veit það sannarlega ekki. Eg veit ekki heldur, hvort það hefir verið rannsakað, hve gott þetta kreólin er, sem hér er leyft.

Það hefir verið reynt hér margskonar kreólín, og reynzt misjafnlega. Beztu tegundir af kreólíni eru náttúrlega ágætt baðlyf, en þær eru vanalegast alldýrar.

Þessi tillaga ætti að vera öllum meinfangalaus, nema svo sé, að hér sé einhverjir að beita verzlunarbrögðum til þess að útiloka eitt sérstakt verzlunarhús. Eg vona nú, að svo sé ekki, heldur hafi þeim, sem hlut áttu að máli, ekki verið kunnar óskir manna í þessu efni, þegar valdar vóru þessar tegundir. Eg sé enga hættu á því, hvorki fyrir stjórnina né þingið, þótt tillagan verði samþykt.