05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

105. mál, baðefni

Jón Jónsson:

Eg veit ekki betur, en að nú sé þegar búið að samþykkja samskonar tillögu í hv. Ed., og þá virðist mér að eina megi gjöra hér. Hæstv. ráðh. tók vel í málið, og eg veit, að hann vill fyrir sitt leyti verða við óskum þingsins í þessu efni.

Því hefir verið skotið fram, hvort ekki sé óviðfeldið, að þingið samþ. þessa tillögu, án þess að rannsóknir hafi verið gjörðar.

Eg álít, að þetta þurfi ekki að bera undir dýralækni: Þessi lyf eru svo margreynd. (Pétur Jónsson: Albínlögur hefir reynzt verst í Þingeyjarsýslu). Annað segir Magnús á Grund. Eins og hv. 2. þm. Eyf. tók fram, hafa bæði duftið og lögurinn reynzt vel í Eyjafirði. Eg veit ekki, hvort dýralæknir hefir rannsakað þau baðefni, sem þegar eru leyfð, en hafi hann ekki gjört það, heldur upp úr þurru verið með þessu, en móti hinu, þá álít eg lítið á því að byggja.

Ef það á að vera regla að fara eftir ráðum dýralæknis í þessu, þá á hann að byggja á rannsóknum, en ekki geðþótta sínum, því að þá væri hægt að segja, að hann væri hlyntari einum en öðrum.

Það er enginn vandi fyrir þingið að samþykkja þetta, því að reynslan er þegar fengin fyrir því, að þessi baðlyf eru góð.

Í sambandi við það, sem hæstv. ráðherra sagði, þá álít eg það alls ekki nauðsynlegt að binda sig við álit dýralæknis. Það getur verið gott að fá það til leiðbeiningar, en annars á stjórnin eftir sem áður að ráða valinu og löggilda baðefnin.