05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

95. mál, grasbýli

Jóhann Eyjólfsson:

Eg vil nota tækifærið til að þakka nefndinni fyrir vingjarnlegar undirtektir undir frumvarpið, og vona eg, að háttvirt deild samþykki tillöguna, sem nú liggur fyrir. Að vísu hefði eg helzt kosið, að frv. sjálft hefði orðið að lögum með þeim breytingum og viðaukum, sem hollar og nauðsynlegar hefði þótt, en þorði þó ekki að halda því fram, fyrir því, að það. kynni þá að sæta lakari meðferð. Vænti eg, að unnið verði að málinu af dugnaði og í alvöru, og treysti hæstv. ráðh. til þess. Dettur mér í hug, að með engu framar en einmitt þessu, geti hann framfylgt því fagra heiti, sem hann gaf hér í deildinni í gær, þegar hann ávarpaði þingið, er hann kvaðst vilja vinna að því af öllum mætti, að grænu blettunum fjölgaði í landinu, og eg vona og treysti því, að hann sanni þessa hugsjón sína einmitt með því, að hann beiti sér með alvöru og dugnaði fyrir grasbýlismálinu, því að þá sannaðist það, að þessi fallegu orð eru annað og meira en rúsína, sem rétt er að barni, og að það er annað en mas í skálaræðu.