07.08.1914
Neðri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

70. mál, afnám eftirlauna

Einar Arnórsson:

Eg skal reyna að lengja ekki mikið umræðurnar.

Þegar nánar er athugað, sýnist vera mjótt á milli skoðana hv. samþingism. míns (S. S.) og hv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) á þessu máli. Í þingsályktunartillögu á þskj. 193 frá Ed., sem hv. 1. þm. Rvk. felst á, er skorað á landsstjórnina að skipa 5 manna milliþinganefnd til þess að íhuga rækilega óskir þjóðarinnar um afnám eftirlauna, og launamálið yfirleitt. Hv. samþingismaður minn (S. S.) hefir í sjálfu sér ekkert á móti þessari rannsókn. Hann fer aðeins fram á, með brt. sinni, að stjórninni verði falið að framkvæma hana.

Það var tekið fram í umræðunum um annað mál, þingsályktunartillögu á þskj. 136, að svo mörgum og stórum málum hefði verið dembt á stjórnina, að henni væri fullkomin ofætlun að gera þeim öllum góð skil. Get eg látið mér nægja að minna á aðgreiningu umboðsvalds og dómsvalda, sem stjórninni hefir verið fengið til íhugunar. Ef svo jafnalvarlegu og erfiðu máli og þessu væri bætt ofan á það, sem stjórninni hefir verið fengið í hendur til rannsóknar, þá hygg eg, að enginn, sem nokkra þekkingu hefir til að bera á þessum málum, treystist til að mótmæla því, að stjórninni er alt þetta óframkvæmanlegt.

Í nefndaráliti Ed. um þetta mál er ætlast til, að þessi nefnd taki einnig til íhugunar málið um aðgreiningu umboðavalds og dómsvalds. Ef svo verður, þá er svo langt frá því, að það sé lítið, sem nefndin á að hafa að gera, að það mun einmitt vera töluvert meira en allar þær milliþinganefndir, sem hingað til hafa verið skipaðar á þessu landi, hafa þurft að inna af hendi.

Eg held, ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykt, að stjórninni sé heimilt að fela nefndinni þetta starf, enda býst eg við, að hagkvæmara væri að sama, nefndin hefði hvorttveggja með höndum.

Um þingsályktunartill. og brt. við hana ætla eg ekki að tala frekar. Aðeins vil eg árétta það, að stjórninni er það fullkomin ofætlun að rannsaka þetta mál eins ítarlega og þörf er á. Jafnvel í löndum þar sem eru 8, 10 eða 12 ráðherrar, dettur engum lifandi manni í hug, að hlutaðeigandi ráðuneyti inni annað eins starf af hendi og þetta. Eg skal benda á það til dæmis, að í Danmörku, þar sem er sérstakt ráðuneyti fyrir kirkju og kenslumál, var skipuð nefnd til þess að íhuga og koma fram með tillögur um, hvernig þeim málum yrði bezt fyrir komið. Hvorki þingi né stjórn datt í hug, að kirkju- og kenslumálaráðuneytið gæti annað því starfi. Ef einhver hefði komið upp með það, mundi það hafa þótt hin mesta fjarstæða.

Fyrir skömmu var einnig í Danmörku gerð breyting á skipun embættismanna og launum þeirra, og eg veit ekki betur, en að það hafi einnig verið árangur af nefndarstarfi. Hér á landi þarf einn og sami maðurinn að sinna öllum málum landsins, og þó að þau sé ef til vill ekki umfangsmikil, þá er sízt fyrir það að synja, að þau eru ósamkynja, og einmitt þessvegna þarf meira þrek og betri heila til þess að rækja þau vel, heldur en flestir munu hafa, og hvað þá ef hann á jafnframt að sinna öðrum eins störfum og hér er um að ræða.

Eg skil hv. samþingismann minn (S. S.) svo, að hann hafi borið fram brt. sína fyrir það, að hann vilji, að ekkert sé gjört í málinu, því að eg get ekki trúað því, að hann sé svo skyni skroppinn, að hann haldi, að stjórnin geti framkvæmt þetta svo í nokkru lagi sé.

Annaðhvort er að gera, að hreyfa málinu alls ekki, eða þá að samþykkja tillöguna, eina og hún var samþykt í Ed.

Hv. Samþingism. minn (S. S.) er sjálfsagt á móti 2. lið till. fyrir þá sök, að hann þykist viss um, að ef nefndin tekur launamálið alt til íhugunar, þá hljóti hún að komast að þeirri niðurstöðu, að laun embættismanna þurfi að hækka. Eg skal ekki spá neinu um, hver niðurstaða nefndarinnar verður, en eg tel þó ekki ólíklegt, að hún kynni að leggja til, að laun sumra starfsmanna landsins verði hækkuð að einhverju leyti. Býst eg við, að hv. samþingism. minn (S. S.) telji það ekki með öllu ósanngjarnt, því að eg veit ekki betur, en að hann hafi verið því samþykkur á þinginu í fyrra, að hækka laun sumra starfsmanna, eða að minsta kosti mun hann ekki hafa gert það að ágreiningi í fjárlaganefndinni. (Pétur Jónsson: Jú, það gerði hann). Ekki er það að sjá á opinberum skjölum, og eftir öðru get eg ekki farið.

En það er ekki svo að skilja, að eg sé að ámæla hv. þm. (S. S.) fyrir þetta. Það er langur vegur frá því. sem sagt, eg spái engu um það, hver niðurstaða nefndarinnar verður, en hitt er aðalatriðið fyrir mér, að einhverntíma fáist botn í þetta deilumál, svo að ekki þurfi ár eftir ár að vera að þvæla um það af litlu viti og engri þekkingu.

Eg skal játa, að það er í rauninni eðlilegt, að menn sé hálft í hvoru myrkfælnir við milliþinganefndir, því að ef satt skal segja, þá hefir árangurinn af þeim oft verið lítill. En eg verð jafnframt að bæta því við, að störf þeirra sumra hafa verið mjög mikil. Get eg tekið »kolanefndina« 1911–1912 til dæmis, því að þótt hennar tillögur næði ekki fram að ganga, þá var það mikið verk, sem hún leysti af hendi.

Loks skal eg geta þess, að eg álít, að þetta ætti ekki að vera flokkamál í þinginu og ekki stéttamál í landinu. Hér er um hagsmuni allra landsmanna að tefla og málið ætti að leiðast þannig til lykta, að allir gæti orðið ánægðir með það. Það hefir sýnt sig, að menn eru óánægðir með fyrirkomulagið eina og það er nú. Almenningur lítur illu auga til eftirlaunannna, og margir embættismenn eru óánægðir með launakjörin. Það er efasamt, eins og háttv. samþingismaður minn (S. S.) tók fram, að rétt sé að miða eftirlaunin við upphæð föstu launanna og embættistímann. Að minsta kosti er fyrra atriðið efasamt, þó að síðara atriðið virðist í fljótu bragði hafa meiri rétt á sér.