11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

121. mál, uppburður sérmála Íslands

Bjarni Jónsson:

Það er eiginlega ekkert stóratriði, sem eg þurfti að tala um. Eg nefndi í morgun aðalatriðin. En eg ætlaði aðeins að afsaka mig fyrir tveimur hv. þm., sem réðust á mig. Það var hv. 2. þm. Rvk. (J. M), sem sagði að eg hefði brugðist einhverju, sem eg talaði um í stjórnarskrárnefndinni. Eg sagðist þar ekki vilja ráðast á fráfarinn ráðherra, til þess drægi mig ekkert, og mun eg enn svo með fara. En hitt vildi eg ekki, að svo liti út, sem horfinn væri sá skoðanamunur, sem verið hefir milli mín og hans, og kom í ljós við 1. umr. stjórnarskrárinnar. Hann er enn sá sami.

Þá var og annað atriði, sem sami hv. hv. þm. (J. M.) sagðist ekki hafa skilið hjá mér, hvernig eg vildi heimfæra þetta undir þá alþjóðareglu, sem eg nefndi. En þetta er alveg augljóst. Ef réttarbreyting, hér samningsuppkast Íslandsráðherra við Dani 20. okt. 1913, er auglýst tveimur þjóðum, þá geta báðar þjóðirnar játað eða þagað, og verður þá samningur úr, eða önnur þagað, en hin játað, og fer þá á sömu leið.

Ef á hinn bóginn önnurhvor þjóðin neitar, þá getur ekkert orðið af samningum. Þetta er nú að fara fram hér. Hér er önnur þjóðin að neita að ganga undir samningsuppkastið, eða samþykkja það, svo að dæmið er fullljóst.

Hinn þm., sem á mig réð í ræðu sinni, var hv. þm. N. Þing. (B. Sv.). Eg skal fúslega játa, að mér kom það mjög óvænt, að fá úr þeirri átt svo vingjarnleg orð. Eg vil ekki fara að þreyta kapp við hann, og ekki vera að skemta skrattanum með því, að við förum að rífast hér að ástæðulausu. Eg skal benda honum á það, sem eg sagði í fyrri ræðu minni, að þegar er símskeyti barst í fyrrahaust um þessa atburði, skrifaði eg grein í Ingólf og færði þar heim sanninn um, að eg vildi láta samþykkja nauðsynleg mótmæli, sem hér er um að ræða, og því verður eigi neitað, að öll þau atriði, sem eg tók þar fram, felast í þessum mótmælum. Eg hefi því hvorki þagað yfir minni skoðun né hvarflað frá henni. Eg fekk og hv. 2. þm. Árn. (E. A.) til að skrifa sína grein í þetta blað, en hafi ritstjórinn sjálfur ritað greinar með grundvallaðri skoðun á þessu, þá er mér ekki skylt að uppfylla þeirra kröfur, heldur honum sjálfum.

Eg stend við alt, sem eg hefi sagt, og eg hefi fullkomlega haldið alt, sem eg hefi skrifað og látið skrifa.