04.07.1914
Neðri deild: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

89. mál, friðun héra

Ráðherra (H. H.):

Þetta mál er svo til komið, að maður, velviljaður Íslandi, Theodor Havsteen, eigandi að stórbýlinu Maglegaard við Hróarkeldu, hefir boðist til að gefa og flytja hingað til lands lifandi héra frá Noregi eða Færeyjum, til að koma hér upp stofni nýrra veiðidýra, er að gagni mætti koma. En skilyrðið fyrir því, að tilraunin geti hepnast er það, að dýrin verði friðuð um tiltekinn tíma meðan þeim er að fjölga. Eg hefi orðið þess var, að þó þetta virðist ærið einfalt mál, þá eru skoðanir manna á því mjög skiftar. Sumir álíta, að mikið gagn geti leitt af þessu fyrir landsmenn. Aftur á móti eru aðrir þeirrar skoðunar, að það geti orðið til hins mesta ógagns — hérarnir muni spilla jarðargróðri og jafnvel verða orsök í uppblæstri landsins. Eg hygg að þessi hræðsla sé nokkuð ástæðulítil, og að skepnur þessar sé fremur meinlausar, að minsta kosti skaðlitlar fjarri bæjum, og að miklu fremur megi verða búbætir að þeim fyrir marga. Væntanlega verður kosin nefnd í málið, og tekur hún þá hinar skiftu skoðanir til nánari athugunar.