11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

121. mál, uppburður sérmála Íslands

Benedikt Sveinsson:

Það vill svo vel til, að eg þarf ekki að vera langorður. Það sem eg sagði í fyrri ræðu minni, stend eg við, því að eg get ekki fundið, að það hafi verið hrakið.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) var að fárast yfir því, að eg hefði kveðið harðan dóm yfir þessari smíð nefndarinnar og brá mér um, að eg hefði ekki látið þessar skoðanir uppi fyrr. En eins og eg tók fram í fyrir honum, þá hefir þetta mál legið fyrir flokksfundum í alt sumar, og dró eg aldrei neina dul á það, að eg væri annarar skoðunar um þetta efni en lögfræðingarnir í flokknum og að eg áliti fyrirvarann algerlega ótækan, nema hann yrði lagaður. Þetta tók eg fram síðast fyrir tveim, þrem dögum á flokksfundi og krufði fyrirvarann þá til mergjar — álíka og eg hefi gjört í dag, og greiddi atkvæði móti honum, er hann var borinn þar undir atkvæði.

Sami hv. þm. sagði, að þeir hefði komið sér saman um að hafa orðalagið slíkt sem það er, til þess að það spilti ekki staðfestingu konungs á stjórnarskránni, og að fyrirvari hv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) hefði ekki nema stóryrði fram yfir fyrirvara meiri hl. Þetta er ranghermi. Fyrirvari hv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) hefir alls engin stóryrði og eg hefi aldrei haldið því fram að setja þyrfti nein stóryrði í fyrirvarann, eins og hv. 2. þm. Árn. (E. A.) og hæstv. ráðherra voru að fárast um. Þeir kalla það stóryrði, ef sannleikurinn er sagður svo, að hann verði ekki misskilinn. Það er þetta, sem eg hefi lagt áherzlu á, og þess vegna get eg felt mig við fyrirvara hv. þm. N.-Múl. (J. J.), því að hann einn segir afdráttarlaust, það sem þarf að segja. — Og eg get ómögulega séð, að það sé neitt hættulegt. Ef sannleikurinn er sagður blátt áfram og undirhyggjulaust, þá metur hver greindur og gegn maður það betur, heldur en ef hann sér, að verið er að fara með málstaðinn í felur, hann sé fólginn í einhverjum flóka, svo að leita þurfi að meiningunni með loganda ljósi.

Hv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að fyrirvari meiri hl. væri nógu eindreginn og hefði í sér fólgin « öll þau ákvæði, sem taka þyrfti fram. Þetta orðatiltæki á hér vel heima, því að þeir hafa »falið« efnið svo vel, að erfitt verður að finna það. En ekki skil eg, að konungsvaldinu verði neitt geðþekkara, að vilji þingsins sé svo einurðarlaust látinn í ljós, að lengi þurfi að leita þess, sem hv. bragðarefum kynni að hafa þóknast að setja innan í þennan flóka, — heldur en að þingviljinn komi fram skýrt og orðskvíðalaust.

Eg get heldur ekki séð, að hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hafi hrakið það, sem eg sagði um óljóst orðalag á fyrirvaranum.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að eg hefði fundið að því, að í fyrirvara meiri hlutans stæði, að alþingi áskildi, að konungaúrskurðurinn yrði skoðaður sem hver annar konungsúrskurður, en þetta er alveg rangt hjá hinum háttv. þm., því að eg tók það einmitt berum orðum fram, að orðið »áskilur« væri ærlegasta orðið í fyrirvara meiri hlutans og hefði hann það fram yfir minni hl.

Það er engin mótsögn í því, er eg sagði, að ráðherra gæti verið stefnt í vanda eða voða að óþörfu með þessari fyrirvaraaðferð, og hinu, að fyrirvarinn væri gagnslaus — Eg þóttist taka það fullskýrt fram í fyrri ræðu minni, að fyrirvarinn gæti ekki gert hvorttveggja: bjargað staðfesting stjórnarskrárinnar og um leið bjargað rétti vorum, því að ef konungur tæki mark á fyrirvaranum, þannig, að hann hygðist ekki geta fullnægt honum með öðru en því, að hverfa frá því, sem boðað var í ríkisráði 20. okt. í fyrra, þá mundi hann ekki staðfesta stjórnarskrána. En ef konungur þykist þar á móti geta virt fyrirvarann að vettugi, þá stendur auðvitað ekki á staðfestingu upp á þær spýtur, sem boðað var í fyrra.

Að þessu leyti er ráðherra hér stefnt í vanda að gagnslausu, sem eg efa ekki, að minni hlutanum sé ósárt um, eins og eg drap á áðan, og fyrirvarinn er þá líka gagnslaus, því að hann orkar ekki þess, að stjórnarskráin nái staðfestingu með þeim skilyrðum, sem nauðsynleg eru frá Íslands hálfu, en án þeirra óskar þjóðin ekki staðfestingar.

Hæstv. ráðherra (S. E.) lýsti yfir því, að sér þætti leitt, að vegir okkar hefði skilið svo fljótt í sjálfstæðismálinu. Okkur greinir nú ekki á nema um þetta eina atriði, en eg skal játa, að það er mikilsvert atriði, og verða vegir okkar að skilja um það, svo langt sem það nær, því að mér dettur ekki í hug að fylgja þessari stjórn né annari að málum, ef það kemur í bág við sannfæring mína Það er satt, að þjóðin hefir óskað eftir stjórnarskrárbreytingu, en hún vill ekki stjórnarskrárbreytingu í skiftum fyrir neitt réttindaafsal.

Eg ber ekki vantraust til hæstv. ráðherra í því efni, að hann segi konungi greinilega frá, hvað hér hefir farið fram. En það er eftir að vita, hvernig konungur tekur í það. Það hefði verið betra fyrir hæstv. ráðherra að hafa í höndum einhvern ákveðinn fyrirvara, þegar hann fór á konungsfund, en það var ekki hægt. Þingmenn eru meira að segja ekki enn á einu máli um það, hvernig fyrirvarinn eigi að vera, eftir alt það þref, sem um það efni hefir verið í sumar, innan þings og utan.

Eg verð því að halda því eindregið fram, að réttast sé að fella stjórnarskrána, úr því að í þetta óefni er komið, heldur en að stofna réttindum landsins í hættu eða lenda í erjum við útlent vald á slíkum viðsjártímum, sem nú eru. — En ef samþyktur er nokkur fyrirvari, þá er einsætt að samþykkja þann einn, sem tvímælalaust tekur fram, það sem þarf að segja.