11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

121. mál, uppburður sérmála Íslands

Ráðherra (S. E.):

Út af ummælum háttv. 1. þm. Rang. (E. J.) vil eg geta þess, að það var enginn sérstakur flokkur, hvorki Sjálfstæðisflokkurinn eða annar, sem réð því, að eg fór á konungsfund, heldur var það Hans hátign konungurinn, sem boðaði mig utan, og til þess hafði hann vitanlega fullan rétt.

Sami háttv. þingm. fann mér það og til foráttu, að eg hefði ekki lagt fyrirvarann í stjórnarskrármálinu fyrir konung. en það gat eg ekki. eins og háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) hefir þegar skýrt frá, vegna þess, að hann hafði ekki verið saminn þegar eg fór héðan. Eg gat aðeins skýrt konungi frá, eins og eg líka gerði, hver mundi verða þungamiðja fyrirvarans.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þingm. N.-Þing. (B. Sv.) sagði, að fyrirvari meiri hlutans væri flókinn og óskýr, þá skil eg ekki, hvernig nokkrum skynsömum manni fer að finnast það. Því að kjarninn í fyrirvaranum er einmitt sá, að úrskurðinum megi breyta eins og hverjum öðrum konungsúrskurði með undirskrift Íslandráðherra eins, sbr.: »Ennfremur ályktar Alþingi að lýsa yfir því, að það áskilur, að konungsúrskurður sá, er boðaður var í fyrrnefndu opnu bréfi, verði skoðaður sem hver annar íslenzkur konungsúrskurður, enda geti konungur breytt honum á ábyrgð Íslandsráðherra eins, og án nokkurrar íhlutunar af hálfu dansks löggjafarvalds eða danskra stjórnarvalda«. Eg skil ekki hvað það er, sem háttv. þingm. N.-Þing. getur fundist tvírætt í þessu og hvað honum getur fundist flókið. Útaf því, sem háttv. sami þm. sagði um það, að hann mundi ekki fylgja stjórninni framar en sannfæring hans byði, þá vil eg lýsa yfir því, að eg ætla hvorki að biðja hann né aðra að styðja mig gegn sannfæringu sinni.