07.07.1914
Neðri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

1. mál, íslenski fáninn

Ráðherra (H. H.):

Hv. þm. (Sk. Th.) skýrði ekki rétt frá skoðanamuninum milli mín og flutningsmanna tillögunnar. Það sem eg vil er það, að þingið í heild sinni ákveði, hvaða aðferð verður höfð við málið. Ef þessi tillaga nær fram að ganga grípur neðri deild fram fyrir hendurnar á efri deild og tekur sér ein vald til að segja, að þetta skuli vera deildarmál. Þetta tel eg ekki rétta aðferð, en vil, að allir þingmenn sameiginlega fjalli um það og ráði því, hvernig haga skuli afskiftum þingsins af framkomnum nefndartillögum um gerð fánans, sem ákveðin verður með konungsúrskurði.

En ef önnurhvor deildin ætti að taka þetta mál fyrir, þá væri miklu eðlilegra, að það væri efri deild, því að hún hefir frv. til meðferðar, sem er mjög skylt þessu máli, það er frv. um breyting á lögum um skrásetning skipa, að leyft skuli vera að nota í landhelgi Íslands íslenzkan þjóðernisfána á íslenzkum skipum, í stað danska fánans, sem nú er lögboðinn þar.

Það var ekki allskostar rétt, sem hv. þm. (Sk. Th.) sagði, að gerð fánans væri sjálfsagt löggjafarmál. Það er miklu fremur umboðslegs eðlis. Svo er það að minsta kosti í flestum öðrum löndum, að fánagerðin er ákveðin úrskurðarleiðina; núgildandi fánalög í Noregi eru undantekning. Áður, alt til þess er þau koma út, var fánagerðin einnig þar ákveðin með konungaúrskurði. En er Norðmenn fengu núverandi fána sinn (hreina flaggið), synjaði konungur, og urðu þeir því að grípa til þess, að gagnvart lagaboðum hefir konungur þeirra aðeins frestandi synjunarvald, og þegar stórþingið hafði samþykt fánalög sín þrisvar, urðu þau að gildandi lögum eftir stjórnarskrá þeirra — þrátt fyrir synjun konungs.

Vér höfum ekkert slíkt að bera fyrir oss.

Eg verð að taka það fram enn og aftur, að eg hlýt að halda fast við það, að þingið alt eigi að ráða því, hvernig það vill haga afskiftum sínum af þessu máli, og legg því eindregið til, að tillagan verði feld.