07.07.1914
Neðri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

1. mál, íslenski fáninn

Flutningsm. (Skúli Thoroddsen):

Eg vil geta þess, að það er hvorttveggja, að hér ræðir eigi um það, að bera málið upp í sameinuðu alþingi, heldur um hitt, að ræða það á »privat«fundi allra þingmanna, enda yfirleitt ekki vana aðferðin, að málin sé fyrst borin upp í sameinuðu þingi, heldur er því ætlað að skera úr, ef ágreiningur verður milli deildanna. Mér getur því ekki annað fundist, en að það sé einkennileg aðferð, sem hv. ráðherra (H. H.) hefir hugsað sér.

Geta má þess og, að þó að Nd. kjósi þessa nefnd, er réttur Ed. á engan hátt skertur með því. Tillögur væntanlegrar nefndar koma til hennar kasta á eftir, og þá getur hún gert það við málið, sem henni sýnist.

Hvað það snertir, að gerðir fána í öðrum löndum hafi verið ákveðnar með konungsúrskurði, þá má vel vera, að svo sé. En hvað sem því líður, verður því eigi neitað, að það sé þó í eðli sínu löggjafaratriði, og því eðlilegast, að það gangi sömu leið, sem önnur löggjafarmál.

En nú vill svo vel til, að einmitt í þessari sömu andránni, þá er verið að bera um fundarboð hér í deildinni, þar sem skorað er á þm. að mæta á privatfundi, á miðvikudag kl. 5, til þess að ræða um fánamálið. En eg get ekki séð, að málið sé lagt fyrir sameinað þing, eins og hæstv. ráðherra gaf þó í skyn í ræðu sinni æ annað veifið, þótt þm. sé boðaðir á »privat«fund.