04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

85. mál, brúargerð á Langá

Eggert Pálsson:

Vitanlega færi bezt á því og væri eðlilegast, að hv. þm. Mýr. (J. Eyj.) og hv. þm. Snæf. (S. G.) bitust á um þessar tillögur, sem hér liggja fyrir. En eins og hv. deildarmönnum er kunnugt, er hv. þm Snæf. (S. G.) að miklu leyti hamlað máls, og getur hann því ekki fyllilega borið hönd fyrir höfuð sér og sínu kjördæmi, og því er það, að eg leyfi mér að leggja hér lítil orð í belg.

Eftir að hafa lesið málskjölin, dylst mér ekki, að Langárbrúin þarf bráðra endurbóta við. Það er enginn vafi á því, að hún er illa komin, eins og hv. þm. Mýr. (J. Eyj.) skýrir frá. Og þar sem hún liggur yfir stórt og hættulegt vatnsfall, er viðbúið, að af geti hlotizt tjón, og jafnvel líftjón, ef ekki verður neitt aðhafst, til þess að koma í veg fyrir það. En hinsvegar get eg ekki annað en kannast við, að ef réttlæti á að gilda í þessu máli, þá á brúin ekki að byggjast á kostnað Snæfellsnessýslu. Það er ekkert réttlæti fólgið í því, að úr því að fé hefir verið veitt á reglulegum fjárlögum, til framhalds Stykkishólmsveginum, þá sé það nú tekið aftur og því varið til annars fyrirtækis og meira að segja í annari sýslu.

Eg hygg, að það sé varhugavert að innleiða þá reglu, að aukaþing kippi aftur þeim fjárveitingum, sem reglulegt alþingi hefir veitt. Þrátt fyrir það, þó að eg geti ekki annað en talið það nauðsynlegt að þessi brú verði gerð hið bráðasta, þá hygg eg samt sem áður ógerlegt fyrir þingið að koma því í framkvæmd með því móti sem till. hv. þm. Mýr. (J. Eyj.) fer fram á.

En af hverju stafa nú þessi vandræði, sem bæði eg og aðrir eru i, að því er þetta mál snertir? Það stafar af þeirri glópsku, sem þessa hv. deild henti hér á dögunum, er hún feldi fjáraukalagafrumvarpið. Þessu hefði verið auðvelt að koma í kring á sómasamlegan hátt fyrir þingið, ef fjáraukalögin hefði fengið að ganga fram, því þá var svo ofureinfalt að veita þeim þá litlu en nauðsynlegu upphæð, sem þurfti til þess að endurbæta þessa brú. Eg hygg, að þeir hv. deildarmenn, er hér áttu hlut að máli, hljóti nú að finna til glópsku sinnar, er þeir reka þannig svo að segja nefin í hana. Hér eru bæði eg og aðrir komnir í þann skyldubága, sem ekki er auðvelt að greiða úr. Á aðra hliðina viljum vér láta endurbæta Langárbrúna, svo að ekki hljótist slys af vanrækslunni, en hinsvegar viljum vér heldur ekki láta ganga á augljósan rétt Snæfellsnessýslu. En úr því að svo er ástatt, verður þó að skera úr, og sýnist mér þá ekki um annað að gera, en að fella þessa tillögu hv. þm. Mýr. (J. Eyj.), því að af tvennu illu er það þó verra, að þingið fari að gera sjálft sig ómerkt, með því að taka það aftur, sem það hefir einusinni veitt.