04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

85. mál, brúargerð á Langá

Guðmundur Eggerz:

Eg hefi veitt því eftirtekt, að ekki er öllum þingm. ljóst, að þessu máli er þannig varið, að það er sýslan, sem hefir viðhaldsskylduna á hendi. Háttv. flutnm. (J. E.) heldur því fram, að svo sé ekki, en eg skal þá, til að leiða hann í allan sannleika, lofa honum að heyra kafla í bréfi landsverkfræðingsins um þetta efni. Þar segir svo: »Með því, að nú var brú á Langá þegar komið var með veginn að henni, þá var vitanlega ekkert átt þar við brúargerð, en brúin þó síðan skoðuð sem einn hluti af þjóðvegi þessum, sem Mýrasýslu bæri skylda til að halda við«. Eg vona að háttv. flutningsmanni tillögunnar, verði héðan af ljóst, að þetta er rétt, sem eg segi, að sýslan á að viðhalda vegi þessum.

Hitt er auðvitað alt annað mál, að sé ætlast til, að bygð verði járnbent steinsteypubrú yfir ána, þá er ómögulegt að heimta það af sýslunni, að hún greiði þann kostnað að öllu leyti. Þetta er auðskilið, af því að sýslunni ber engin skylda til að viðhalda vegi í öðru formi, heldur en hann var upphaflega gerður. Mér finst það alveg eðlilegt, að þar sem steinsteypubrú er mikið dýrarari en trébrú, þá borgi landssjóður þann mismun. En hitt held eg, að ekki geti komið til nokkurra mála, að taka af því fé, sem búið er að veita til vegargerðarinnar og leggja það til brúargerðarinnar, sem sýslan er skyld til að kosta. Mér finst þessi tillaga vera hreinasta ósanngirni, sem ekki nær nokkurri átt. Ef að þessi tillaga yrði samþykt, þá gæti allar sýslur komið á eftir og heimtað fé úr landsjóði til að halda við öllum þjóðvegum.

Háttv. flutningsm. (J. E.) játaði í öðru orðinu, að brúin þessi væri grautfúin og því nær ónýt, en í hinu orðinu hældi hann Mýramönnum fyrir það, hve vel þeir héldi við sínum vegum. Eg get ekki séð, að nokkurt vit geti verið í að halda þessu tvennu fram í einu. Háttv. flutn.m. (J. E.) sagðist ekki vilja vera í sporum þeirra manna, sem nú legðist á móti þessari brúargerð, þegar slys hlytist af því, hvað brúin væri ónýt. Það getur vel verið, að þessi brú sé svo ónýt, að slys geti hlotist af að fara hana, en það verður þá ekki þinginu að kenna, heldur Mýramönnum, því að þeir eiga að sjá um, að brúnni sé haldið við.

Í fám orðum sagt; mér finst þessi tillaga vera í fylsta máta ósanngjörn, og vona,að deildir taki hana ekki til greina.