12.08.1914
Neðri deild: 44. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

117. mál, kostnaður við starf fánanefndar

Fyrirspyrjandi (Einar Arnórsson):

Eg skal reyna að vera stuttorður, enda er fyrirspurnin ekki borin upp í því skyni að halda uppi skemtun fyrir fólkið.

Þegar einhver vandasöm atriði eða störf ber að höndum, sem lúta að lög gjöf þjóðanna, þá er það altítt, þegar landstjórnin treystir sér ekki til að ráða fram úr málunum á eigin spýtur, að leitað er til manns eða manna, sem taldir er bera bezt skyn á málin. Þessi aðferð hefir verið höfð hér sem annarastaðar í siðuðum löndum.

Eg hefi kynt mér, hversu margar milliþinganefndir hafi verið skipaðar hér, síðan vér fengum fjárforræði. Það getur verið, að þær hafi verið fleiri, en mér hefir talist, en eg hefi getað fundið, að þær hafa verið tíu samtals, og er þá þó meðtalin landbúnaðarnefnd sú, sem skipuð var 1870, en eigi lauk störfum sínum fyrr en eftir að vér fengum fjárforræði.

Nefndirnar eru, auk núnefndrar landbúnaðarnefndar, skattanefnd, skipuð með konungsúrskurði 29. okt. 1875. Eftir aldamótin 1900 hefi eg fundið 8 milliþinganefndir.

1. Nefnd í þurfamannamálum skipuð með konungsúrskurði 13. nóv. 1901. Í henni sátu 3 menn. Kostnaður við hana varð kr. 4476,57.

2. Landbúnaðarnefnd var skipuð 2. marz 1904. Áttu og 3 menn sæti f henni. Kostnaður við hana varð kr. 2953,75.

3. Kirkjumálanefnd, skipuð sama dag (2. marz 1904). Kostnaður varð kr. 2989,12.

4. Skattanefnd, skipuð 2. des. 1907. Áttu 5 menn sæti í henni. Kostnaður varð kr. 5927,00.

5. Peningamálanefnd, skipuð með ráðherrabréfi 28. marz 1911. Í henni sátu 5 menn. Kostnaður kr. 9212,81.

6. Millilandanefndin verður ef til vill eigi talin til venjulegra milliþinganefnda. Hún er skipuð með konungsúrskurði 30. júlí 1907. Sátu í henni 7 menn. Sú nefnd varð eðlilega miklu dýrari en hinar, bæði vegna ferðakostnaðar og dýrs uppihalds í Kaupmannahöfn. Mér er sagt, að kostnaður við hana hafi numið kr. 24,334,50.

7. Fjármálanefnd sat á rökstólum haustið 1910. Í henni sátu 5 menn, en þeir unnu alveg kauplaust.

8. og síðasta nefndin er þá nefnd sú, sem skipuð var af ráðherra 30. desbr. 1913 til að koma fram með tillögur til stjórnarinnar um gerð íslenzka fánans. Í henni sátu 5 menn.

Þetta yfirlit um nefndirnar hefir mér þótt rétt að gefa samkvæmt upplýsingum þeim, er eg hefi náð til.

En þá er að gera grein fyrir því, hversvegna eg hefi borið upp þessa fyrirspurn.

Þessi nefnd, fánanefndin, sat á rökstólum frá því um nýár og fram í júní, um 5½ mánuð. Skýrsla hennar kom út 17. júní, að mig minnir.

Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn minni var sú, að ýmsir höfðu talið þessa nefnd ónauðsynlega og borið brigður á, að hún hefði þurft að sitja. svo lengi. Síðasta þing hafði og eigi lagt svo fyrir, að þessa nefnd skyldi skipa. Þá höfðu og ýmsar hviksögur borist út um kostnaðinn við nefndina. Þess var jafnvel getið í blöðunum, að greitt hafi verið til hennar 6000 kr. og eftir væri ógreiddar 2000 kr. Þetta þótti mönnum of mikill kostnaður.

Þess vegna var það, að eg beindi þeirri spurningu til umboðsmanns ráðherra við 1. umræðu fjáraukalaganna, hver kostnaðurinn hefði orðið og hvers vegna hann hefði ekki verið tekinn upp í fjáraukalögin. Umboðsmaður ráðherra nefndi eigi upphæðina, en gaf fullnægjandi svar við því, hversvegna upphæðin var eigi tilgreind í fjáraukalögunum. Auðvitað var fyrirspurn mín eigi orðuð svo þá, að honum væri samkvæmt þingsköpunum skylt að svara henni.

Mér er og kunnugt um, að einn þingmaður hefir sent stjórnarráðinu fyrirspurn um kostnaðinn við þessa nefnd, en ekkert svar fengið.

Af þessum ástæðum hefi eg borið upp þessa fyrirspurn. Þar með er hægt að koma í veg fyrir ýkjur og ranghermi um málið, en þing og þjóð fær ábyggilegar upplýsingar, sem það hefir fullan rétt til að heimta.