28.07.1914
Neðri deild: 23. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

89. mál, friðun héra

Einar Arnórsson:

Eg stend upp helzt til þess, að láta í ljósi undrun mína yfir nefndarálitinu á þgskj. 207. Reyndar heyrði eg á ræðu háttv. framsögum. (G. H.), að hann furðaði sig á nefndaráliti því, sem hann hafði samið og undirritað. Það virðist helzt svo, sem hann væri nú orðinn hræddur við það meðvitundarástand, sem hann virðist hafa verið í, er hann reit álitið. Eg vil ráða háttv. deildarmönnum til þess, að kynna sér nefndarálit þetta, því að það er alveg einstakt í sinni röð.

Aðalefni þess er að sýna fram á, hver skaðsemdardýr hérar sé. Nefndin vitnar í nokkur sérfræðirit, er öll fara í þá átt að sanna þetta. Einn höf. segir, eftir því, sem í nefndarálitinu greinir að hérar sé »mjög skaðleg dýr« fyrir sveitabændur. Annar segir þá »nærgöngula í harðindum, eta alt sem tönn festir á, engar girðingar halda þeim, nema þétt net, sem óvíðast verði komið við, og enga leið til að útrýma þeim, nema skjóta þá«. Þriðji höf. segir, eftir því sem nefndin hermir, að hérar hafist mest við í skóglendi, eti allskonar gras, helzt smára, ber og mýrgresi, bíta nýgræðing í skógum, naga börk af birki og reynivið, einkum í harðindum. Þeir leiti oft í kálgarða og sé sólgnir í kál.

Svo fer nefndin til skógræktarstjóra. Hann segir þá líka hættulega, segir »þá gera talsverðan usla í ræktuðum skógum, með því að bíta plönturnar í nýstofnuðum gróðrarstöðum«. Þetta geri þeir þó varla í stórum stíl, nema í hörðum vetrum þegar skortur sé annars fóðurs. Hann segir héra fara inn í kálgarða, eta kál, flysja börk af ungum trjám o. s. frv. Hann hyggur, að setja þurfi upp vírnet til að verja fyrir þeim skóga o. s. frv. Og í öllu falli megi skjóta þá og útrýma þeim, þegar þeir taki að verða alt of nærgöngulir.

Þrátt fyrir þenna vitnisburð vill skógræktarstjórinn ráða til að flytja þá sem fyrst hingað inn í landið.

Og eftir að nefndin hefir fengið þessar upplýsingar, allar móti, en engar með, kemur ályktun nefndarinnar, eins og skollinn úr sauðarleggnum, sú, að nefnd er »ekki mótfallin« frumvarpinu um innflutning héra.

Engin ástæða talin með, allar móti. Nefndin telur eigi einu sinni, að þó sé hægt að eta þá. Þetta er eina ástæðan með, hygg eg, en nefndin nefnir hana eigi.

Rökrétt ályktun af nefndarálitinu er sú, að fella beri frumvarpið. Betra að gera það, en hætta á neitt í þessu efni.