12.08.1914
Neðri deild: 44. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

117. mál, kostnaður við starf fánanefndar

Einar Arnórsson:

Eg stend einkum upp til þess að þakka hv. ráðherra fyrir það, nú hann hefir svarað fyrir spurninni, og það svo skýrt og glögt, sem eg þóttist eiga heimting á. Eg ætlaði ekki að fara að deila við neinn um þetta mál, heldur einungis fá að vita það, hvort sögur þær, sem um það gengi, væri á rökum bygðar, enda er eg ekki sú smásál, að eg sjái eftir fé því, sem varið er, ef það hefir verið nauðsynlegt. Eg er samdóma hv. l. þm. Eyf. (H. H.) um það, að sjálfsagt sé þegar stjórnin þarf að ráða fram úr einhverju máli og hefir ekki tök á að gjöra það sjálf, að hún þá leiti sér aðstoðar hæfra manna, og hygg að sú aðferð borgi sig vel. Hinsvegar getur hver haft sína skoðun um það, hvort nefndin sé of dýr eða ekki, en rétt er að geta þess, sem þegar hefir verið tekið fram í þessu sambandi, að þar sem talsvert mun seljast af riti nefndarinnar, þá lækkar það auðvitað kostnaðarupphæðina að sama skapi.

Ekki skal eg heldur fara mikið út í störf nefndarinnar, en þó dettur mér það í hug, að þegar hún var skipuð, þá hafi að einu leyti verið brugðið frá rangri venju, sem átt hefir sér stað um milliþinganefndir, að minsta kosti tvisvar áður. Eg á hér við það, að í þessa nefnd var enginn maður skipaður úr stjórnarráðinu.

Eg álit sem sé, að það eigi ekki við nema brýna nauðsyn beri til, því að að þegar slíkar nefndir hafa gefið skýrslu sína, þá kemur einmitt til kasta stjórnarinnar að dæma um gerðir þeirra. Nú hefir landritari verið látinn vera sjálfsagður formaður tveggja slíkra nefnda, og það tel eg ekki heppilegt, ekki af því, að eg treysti honum ekki til gagnlegra starfa og óhlutdrægni, heldur af því, að það er óviðkunnanlegt, að maður, sem setið hefir í nefnd, eigi að gagnrýna það sem frá henni kemur, ásamt ráðherra, því að vitanlega getur nefndum skjátlast, eins og hverjum tíðrum dauðlegum mönnum.

Það sýnist nú svo, eftir skýrslu fánanefndarinnar, sem tveir af nefndarmönnum hafi einkum unnið það, sem unnið var í henni, sem sé formaður hennar og svo Þórarinn Þorláksson málari, þótt auðvitað sé ekki gott að segja, hvaða starf liggur á bak við hvað eina. Eg tel það ekki lítils virði, að eiga þarna uppdrætti að svo mörgum fánum, sem sjálfsagt eru allir rétt gerðir, og eins er mikill fróðleikur saman kominn í einum stað f hinni löngu ritgerð formanns nefndarinnar. Einnig er þarna ein ritgerð vel samin eftir Jón docent Jónsson, sem ágætt hefði verið af fá í safni til sögu Íslands, því að þar er því safnað saman, sem áður hefir verið ritað á við dreif um málið. Síðasta greinin um þvott á fánum o. s. frv. er í sjálfu sér ekki mjög nauðsynleg, en það er svo lítið atriði, að ekki tekur því, að tala um það. Eg ætlaði mér ekki hvort sem var að hleypa hér af stað neinum hildarleik um það, hvernig nefndin hefir leyst starf sitt af hendi. Um það geta orðið umræður þegar fjárveitingin kemur til umræðu á næsta fjárlagaþingi, og ef til vill seinna í dag.