28.07.1914
Neðri deild: 23. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

89. mál, friðun héra

Einar Jónsson:

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hóf ræðu sína með því, að taka það fram, að hann hefði ekkert. vit á þessu máli. En svo kemur hann með ýmsar aðfinslur og hnútur í garð nefndarinnar. Það er alt af hægast að finna að. Nefndin hefir reynt að ráða fram úr, hvort gerlegt væri að hleypa hingað inn hérum. Skrifari nefndarinnar hefir lagt mikið starf á sig út af þessu, og efast eg um, að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefði farizt það betur úr hendi. (Einar Arnórsson: En hvar er gagnið?) Hvar er gagnið? spyr háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) — gagnið er í upplýsingum þeim, sem nefndarálitið gefur, og tilvitnunum þeim til ýmsra rita og umsagna merkra manna, sem þar eru tilgreindar — lesi því þeir, sem vilja skilja. Hann spurði, hvort eta mætti héra, og get eg við þeirri spurning svarað því, að hann yrði þeirri fæðu feginn, ef hann væri svangur. Þótt háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hafi skemt mönnum vel með aðfinslum sínum, þá vil eg ráða honum til, úr því að hann hefir ekki vit á málinu, að sjálfs hans sögn, að láta vera að greiða atkvæði, og það ætti aðrir líka að gera, sem eins er ástatt um. (Bjarni Jónsson: Þetta er héralegt). Það gæti þó kannske losað háttv. þingm. Dal. (B. J.) við héraskapinn í dag, að segja nú ákveðið já eða nei. Hér er tækifæri fyrir hendi, að vera ákveðinn partískulaust.