05.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

30. mál, siglingalög

Karl Finnbogason:

Jeg á eina brtill. við frv. þetta á þgskj. 365, og vildi jeg leyfa mjer að mæla örfá orð með henni. Hún hefir vitaskuld komið nokkuð seint fram, en þó vona jeg að menn láti það eigi verða henni að falli. Mönnum hefir yfirsjest að koma á samræmi milli 2. og 3. gr. frv. Í stjfrv. var upphaflega að eins gert ráð fyrir árekstri tveggja skipa, en því var breytt í þá átt, að gert var ráð fyrir að skipin gætu rekist á fleiri í einu. En svo hefir mönnum í báðum deildum skotist yfir að athuga það, að í næstu grein er að eins talað um tvö skip. Brtill. mín á að ráða bót á þessu. Þá virðist mjer og óheppilegt orðalag á niðurlagi 3. gr. Það hljóðar svo : „Skylt er og þeim skipstjóra, að segja hinum skipstjóranum til nafns á skipi sínu og til heimkynnis þess, úr hverjum stað eða höfn það kom og hvert því er ætlað að fara“. Hjer er ekki gott að sjá við hvaða skipstjóra er átt, enda virðist sjálfsagt, að þessi skylda hvíli á báðum eða öllum skipstjórunum. Með brtill. minni er einnig þessu kipt í lag, og með því að hún annars ekki fer fram á neinar efnisbreytingar, vona jeg að hv. deild taki henni vel og samþykki hana.