05.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

30. mál, siglingalög

Framsm. (Karl Einarsson):

Frv. þetta hefir verið sent hingað aftur frá hv. Nd., vegna þess að því hefir verið breytt þar lítið eitt. 1. gr. siglingalaganna hefir verið tekin upp í það og því ákvæði bætt við hana, að ráðherra Íslands megi veita hlutafjelögum undanþágu frá búsetuskilyrðunum og skilyrðinu um rjett innborinna manna, „þegar að minsta kosti 2/3 hlutar stjórnarnefndarmanna fullnægja þessum skilyrðum“. Þetta er svo í dönsku sjólögunum og þaðan hefir nefndin tekið það. Þó er sá munur, að að eins þarf meiri hluta stjórnarnefndar til að fullnægja skilyrðum þessum eftir dönsku lögunum. Enn fremur hefir Nd. gjört eina orðabreyting á frv., sem er þýðingarlaus, og svo bætt því ákvæði við, að þegar frv. þetta öðlast lagagildi, þá skuli fella texta þess inn í meginmál siglingalaganna. Nefndin hjer hefir getað fallist á allar þessar breytingar. — Loks hefir nú á síðustu stundu komið fram brtt. við 3. gr. frá háttv. þingm. Seyðf. Jeg skal taka það fram, að jeg er í rauninni ekki á móti þeirri brtt., en satt að segja tel jeg hana óþarfa, því að orðalagið á 3. gr. getur ekki valdið neinum misskilningi. Það er að vísu rjett, að yfirsjest hefir að koma 3. gr. í fult samræmi við 2. gr., en jeg get ekki skilið, að það geti vilt nokkurn mann. Jeg vil því leggja það til, að brtill. verði feld, því að ef hún verður samþykt, má búast við að Nd. vinnist eigi tími til ; þess að afgreiða málið, en þetta frv. er svo gott og nauðsynlegt, að eigi er rjett að stofna því í hættu.