22.07.1914
Efri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

78. mál, sjóvátrygging

Framsm. (Karl Einarsson):

Nefnd sú, sem hv. deild skipaði í þessu máli, hefir reynt að athuga það sem vandlegast, og eru brtt. á þgskj. 138 árangurinn af starfi nefndarinnar.

Það er alveg sjálfsagt, að frv. þetta nái fram að ganga. Það hefði átt að vera einn hluti siglingalaganna, en af sjerstökum ástæðum, sem jeg hirði ekki um að tilgreina hjer, var þessi kafli siglingalaganna ekki lagður fyrir þingið á sínum tíma. Það er sjerstaklega fyrsti kafli frv., sem nefndin hafði margt við að athuga; hann er óvenjulega óljóst orðaður, og sumstaðar jafnvel rangt mál á honum. Vjer leituðumst við að kippa þessu í lag. en vel má vera, að oss hafi yfirsjest um eitthvað, er leiðrjettingar hefði þurft, því jafnan er hætt við slíku, þegar margt þarf að leiðrjetta. Oss kom jafnvel til hugar, að rita alveg upp af nýju fyrsta kaflann.

Þó varð ekki úr því, og hefði það þó ef til vill verið rjettast.

Breytingarnar eru því nær allar orðabreytingar, eiginlega ekki nema ein efnisbreyting, það er 37. brtt., þar sem farið er fram á að í staðinn fyrir „4 mánuðir“ komi „2 mánuðir“. Vjer álítum, að frestur sá, sem í 31. gr. er ætlaður hinum vátrygða til að ákveða það, hvort hann vilji láta hið vátrygða skip af hendi eða ekki, þurfi ekki að vera lengri en þetta. Fjögra mánaða frest teljum vjer óþarflega langan, og geta stundum haft ýms óþægindi í för með sjer, því að þess er að gæta, að þessi frestur er reiknaður frá þeim tíma, er vátrygður vissi úrslit skoðunargjörðarinnar á skipinu, sem fyrir skemdunum varð, en eigi frá því er skemdirnar urðu, og virðist þessi frestur því nægilegur, hvar sem er á landinu. Það liggur í augum uppi, að það getur verið mjög óhagkvæmt fyrir málsaðilja, að t. d. skip liggi mjög lengi í lamasessi, svo að óákveðið sje um, hver annast eigi viðgjörð þess.

Fyrsta brtt. „ábyrgðarsali“, í stað „vátryggjandi“ hefir nefndin borið fram bæði til þess að koma á samræmi í þessu milli þessara laga og siglingalaganna, og þó sérstaklega af því, að orðið vátryggjandi gæti valdið misskilningi, en ábyrgðarsali ekki.

Þá höfum vjer í 4. gr. slept úr orðinu „rjett“ á undan orðinu, „vátryggingarverð“, og svo höfum vjer gjört annarstaðar í frv., þar sem eins stendur á ; oss fanst því ofaukið, með því að orðið „vátryggingarverð“ er skilgreint í 4. gr. og hefir altaf sömu merkingu í öllu frv. Það kann einhver að halda því fram, að orðið „rjett“ megi ekki missa sig, af því að þá kunni að verða blandað saman þessum tveim orðum frv. „vátryggingarverð“ og „vátryggingarfjárupphæð“, en öllu orðasambandinu er þannig háttað, að það getur varla komið fyrir að svo fari. Vátryggingarverð er sú upphæð, sem hæst má vátryggja hlutinn fyrir, en vátryggingarfjárupphæð táknar í frv. þann hluta sannvirðisins, sem vátrygður er í hvert skifti.

Í 11. brtt. við 7. gr. er prentvilla; þar stendur „þá“ en á að vera „þó“; hefi jeg þegar bent skrifstofustjóra á þetta, og mun hann sjá um að það verði leiðrjett.

Eins og jeg tók fram í upphafi, getur verið að fleira sje í frv., sem þarf að athuga og laga en nefndin hefir gjört. Það fer oftast svo, að þegar á að fara að leiðrjetta margt í löngu máli, þá sjest yfir eitthvað af því, sem þurft hefði leiðrjettingu.

Jeg skal sjerstaklega geta þess, að nefndin hefir sett orðið „hlutur“ eða „hlutir“, í staðinn fyrir „hagsmunir“ alstaðar, þar sem henni fanst það geta átt við. Hún kunni þar betur við orðið „hlutur“, og hyggur, að eftir almennri málvenju geti það þar táknað hið sama sem í frv. á að vera táknað með orðinu „hagsmunir“.

Þá lítur nefndin svo á, að betur ætti við að hafa orðið „kalli“ eða „kapítuli“ í fyrirsögnum frv. kaflanna, en eigi „hluti“. eins og er í frv. Það væri í samræmi við siglingalögin, sem hafa orðið „kapítuli“, en nefndin athugaði þetta of seint til þess að koma því í breytingartillögurnar, en þetta verður lagað við 3. umræðu málsins.

Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um málið að sinni, en vona að hv. deild taki vel breytingum nefndarinnar.