27.07.1914
Efri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

78. mál, sjóvátrygging

Framsögum. (Karl Einarsson):

Jeg leyfi mjer að þakka háttv. þm. Seyðf. fyrir þær leiðbeiningar, sem hann hefir gefið nefndinni, þótt jeg að vísu sje honum ekki samdóma um sumar af athugasemdum hans. Hann mintist fyrst á það, að í 1. gr. er komist svo að orði, að skip eða farmur týnist af „háska“, og sagði hann, að þetta orðalag gæti ekki staðist. Jeg skal játa, að þetta er óheppilegt orðalag, en það má ekki sleppa orðinu „háska“ nema eitthvað annað sje sett í staðinn. Meiningin er sú, að skipið týnist ekki af háskanum sjálfum, heldur af þeirri orsök, sem háskanum veldur, t. d. ef skip er tekið af sjóræningjum, verður erfitt að skilja háskann sjálfann frá orsökinni; en t. d. mætti segja í þeim háska. Þetta mun nefndin taka til yfirvegunar til 3. umr. málsins.

Þá þótti honum þessi setning: „Vátryggjandi getur endurtrygt þá áhættu, sem hann tekst á hendur“ ekki geta staðist. Jeg skal einnig játa, að þetta er ekki heppilegt orðalag, en meiningin er sú, að vátryggjandi getur endurtrygt sig fyrir þeirri áhættu, sem hann tókst á hendur.

Þegar þessum athugasemdum sleppir, get jeg ekki verið háttv. þingm. samdóma um aðfinslur hans við frumv. Að setja lögmæta hluti í staðinn fyrir hagmæta hagsmuni í 1. gr. getur ekki staðist, að jeg ekki tali um í 37. gr. En þar sem nefndin hefir lagt til, að því verði breytt í 6. gr., þar á breytingin vel við. Þá er sú tillaga nefndarinnar að „ábyrgðarsali“ komi í staðinn fyrir vátryggjandi. Sú breyting var gjörð vegna samræmis við siglingalögin, enda líður varla á löngu áður en þessi lög verða feld inn í siglingalögin, og er þá mjög óheppilegt, að sama hugtak sje táknað með ýmsum orðum í sömu lögum.

Enn fremur vil jeg benda á, að vátryggjandi getur bæði haft merkinguna: sá, sem vátryggir eitthvað fyrir sjálfan sig, og sá, sem vátryggir eitthvað hjá öðrum.

Þar á móti er óþarfi að breyta orðunum vátryggingartaki og vátrygður, og álít jeg þau betri en „ábyrgðartaki“ og „ábyrgður“. Þá sagði sami háttv. þingm. að orðið „hagsmunir“ hefði mismunandi þýðingu í lögunum og að brtt. nefndarinnar um að „hlutir“ eða „fjármunir“ skuli í sumum gr. koma í staðinn fyrir „hagsmunir“, mundi valda ruglingi. En þetta er ekki rjett athugað. Oss kann að hafa yfirsjest á einum eða tveim stöðum, það er alt og sumt. Og „hlutir“ getur táknað hvað sem vera skal, líka t. d. verslunararð, þótt væntanlegur sje.

Eins og jeg tók fram, þá var jeg hræddastur við orðið „vátryggingarverð“, en jeg held þó, að það verði ekki misskilið, þar sem það er svo greinilega skilgreint í 4. gr. frv.

Þá kvartaði sami háttv. þingm. yfir því, að nefndin hefði sumstaðar sett „þegar“ í staðinn fyrir „þá er“. Okkur fanst að það færi betur á því að segja „þegar um er að ræða“ heldur en „þá er um er að ræða“. Jeg held að sú athugasemd hins háttv. þingmanns muni falla um sjálfa sig.

Þótt þetta hafi ekki alstaðar verið leiðrjett, þá er það þó til bóta, og má einnig laga hina staði frumv. enn þá. Sama er að segja um málleysuna í 30. og 31. gr.: þótt hún sje víðar, þá sannar það væntanlega ekki, að breytingin sje ekki til bóta, það sem hún nær.

Nefndin mun athuga þetta til 3. umr., en að öðru leyti verð jeg að álíta að frumv. eigi að ganga fram og innihaldi mikla rjettarbót.