28.07.1914
Efri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

78. mál, sjóvátrygging

Karl Finnbogason:

Hv. nefnd segist hafa athugað þetta frv. nákvæmlega, enda hefir hún gjört 41 brtt. við það. En svo er hún ánægð og leggur til að alt draslið. verði samþykt.

Jeg hefi athugað frv. og brtt. nefndarinnar ónákvæmlega. En jeg er ekki ánægður með það, og legg til að það verði ekki samþykt eins og það er.

Frv. er óvanalega illa úr garði gert. Og þó brtt. nefndarinnar sjeu flestar til bóta, þá eru sumar þeirra til engra bóta, og margt, sem þarf að breyta, annað en það, sem þær lúta að.

Jeg vil t. d. benda á 1. gr. frv. Þar er gjört ráð fyrir, að „skip eða farmur geti týnst eða rýrnað“af „háska“. Jeg hefi jafnan haldið, að háskinn sjálfur gæti hvorki týnt dauðum hlut nje rýrt hann, heldur orsök háskans. Vil jeg spyrja hv. nefnd að því, hvort hún álíti ekki að svo sje. Enn fremur hvort hún álíti ekki að t. d. stormur og sjór, sem grandað geti skipi, sje annað en háskinn, sem stafar af stormi og sjó.

Ekki endar grein þessi betur en hún byrjar. Þetta er endirinn, ef eg má lesa hann með leyfi forseta : „Vátryggjandi getur endurtrygt þá áhættu, sem hann tókst á hendur“.

Gott er það að vísu, að geta endurtrygt hvað sem er. En ólíklegt þykir mjer, að margir vilji endurtryggja sjer áhættu, því mjer skilst, að hún muni vera því meiri sem hún er trygðari — eða oftar endurtrygð, og það hjelt jeg að fæstir kærðu sig um.

Sumar breytingar nefndarinnar valda ósamræmi í máli frv. T. d. leggur hún til, að í staðinn fyrir orðið „vátryggjandi“ komi orðið „ábyrgðarsali“. Ábyrgðarsali er að vísu miklu betra orð, en sökum þess að lögin eiga að heita lög um sjóvátrygging, sá sem vátrygt er fyrir, „vátrygður“, og sá, sem tekur vátrygging, vátryggingartaki, virðist mjer meira samræmi í málinu, að orðið vátryggjandi fylgi hinum. Annars þætti mjer viðfeldnara, að breyta öllum orðunum í samræmi við „ábyrgðarsali“ og taka upp orðin „sjóábyrgð“, „ábyrgður“ og „ábyrgðartaki“.

Þá valda brtt. nefndarinnar því, að orðið hagsmunir hefir ýmsa merkingu í lögunum, ef þær verða samþyktar.

Í 1. gr. virðist mjer hagsmunir eiga að teljast: skip, farmgjald, skipsútbúnaður. farmur, væntanlegur verslunararður, umboðslaun af vörum, sjólánskröfur, sjótjónsframlög og aðrar kröfur, sem fullnægja skal með skipi, farmgjaldi eða farmi. Nefndin hefir ekkert athugað við þetta. En í öðrum greinum vill hún breyta orðinu „hagsmunir“ í „hluti“ eða „fjármuni“ og virðist mjer það geta valdið ruglingi, þegar um skaðabætur yrði að ræða, eftir hinum ýmsu greinum laganna. Þarf það að athugast vandlega.

Orðinu „sjeu“ vill nefndin rjettilega breyta í 30. og 31. gr. En hún lætur það óbreytt í 35. gr., en þar er það jafn rangt.

Í 20. gr. vill nefndin setja „þegar“ í stað „þá er“. En hvers vegna vill hún ekki breyta því annarsstaðar, því það kemur víða fyrir? „Skuldara“ þarf að breyta í skuldunaut í 10. gr. og „fjemuna“ í „fjármuna“ í 33. gr. Margt fleira er athugavert, þó ekki hirði jeg um að telja það upp í þetta sinn.

Frumv. er hrærigrautur hugsana og máls frá upphafi til enda. Þyrfti helst að semja það alveg af nýju, því það er líklega óbætandi, svo að við megi una. Ætti því að vísa því til nefndarinnar á ný með tilmælum um, að hún athugi það enn þá nákvæmar en hún hefir gjört nú við 2. umr. Að minsta kosti vil jeg mælast til, að hún taki til greina þessar athugasemdir mínar og gefi mjer kost á að koma að þeim breytingum, sem jeg álit sjálfsagðastar.