01.07.1914
Sameinað þing: 1. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

Tilkynning frá ráðherra

Ráðherra (Hannes Hafstein) :

Þá er því var orðið framgengt, að fyrir Ísland skyldi löggildur vera sjerstakur fáni, sem nota má eigi að eins hvarvetna á landi, heldur einnig sem þjóðernismerki á íslenskum skipum í íslenskri landhelgi, kom það í ljós, að mjög miklir meinbugir þóttu vera á því, að hinn blái fáni með hvítum krossi, sem ýmsir hafa notað hjer urn hríð og farið var fram á í frumvörpunnm á þingi 1911 og 1913, gæti orðið löggiltur sem íslenskur fáni, en hins vegar sá jeg mjer ekki fært að gjöra tillögu um aðra gerð upp á mitt eindæmi. Það var því ákveðið í konungsúrskurðinum um sjerstakan fána fyrir Ísland, að gerð hans skyldi ákveðin með nýjum konungsúrskurði, þá er ráðherra Íslands hefði átt kost á að kynna sjer óskir manna á Íslandi um þetta efni. Jeg sá eigi önnur úrræði til þess að undirbúa þetta viðkvæma mál, ákvörðun um gerð flaggsins, en að skipa nefnd manna til að íhuga málið, leita upplýsinga og undirtekta og koma fram með tillögur, upp á væntanlegt samþykki Alþingis, að því er kostnaðinn snertir. Skipaði jeg því 5 mannanefnd í þessu skyni. Í nefndina voru skipaðir þessir menn :

Guðm. Björnsson, landlæknir, sem formaður, Ólafur Björnsson, ritstjóri,

Matthías Þórðarson, fornmenjavörður,

Jón Jónsson, dósent og

Þórarinn Þorláksson, málari.

Þessi nefnd var skipuð um nýársleytið. Hún hefir unnið að málinu síðan, og nú 17. júní hefir hún lagt fram rækilegt nefndarálit, er jeg leyfi mjer hjer með að biðja skrifarana að útbýta meðal þingmanna, og legg jeg það hjer með fram fyrir hið háa þing í heild sinni, til þess að þinginu gefist kostur á að láta í ljósi álit sitt. Jeg vil leyfa mjer að skjóta því til háttv. forseta, hvort hann teldi ekki rjett, að mál þetta yrði, að minsta kosti til að byrja með, rætt fyrir luktum dyrum, og hvort hann vildi ekki innan skamms kveðja til aukafundar meðal þingmanna í því skyni.

Þá vil jeg leyfa mjer að bæta við örfáum orðum um annað efni.

Þó að afl og afstaða flokkanna væri ekki sem ljósast eftir síðustu kosningar, þótti það nægilega ljóst til þess, að sýnt var, að núverandi stjórn gat ekki talið sjer nægilegt meirihlutafylgi, til þess að geta haldið óskerðum hlut á þessu þingi. Með því að mjer þótti að ýmsu leyti máli skifta, að þingmenn vissu í tíma, að þeir þyrftu ekki að beita neinu harðfylgi til að koma mjer frá ráðherraembættinu, ljet jeg það vera fyrsta verk mitt, er jeg náði konungsfundi, að afhenda lausnarbeiðni mína. Það var þó ekki tilætlun mín, að ráðherraskifti færu fram milli þinga, enda beiddist konungur þess, er hann tók við launsarbeiðni minni, að jeg hjeldi áfram ráðherrastðrfum fyrst um sinn, og væntir Hans hátign konungurinn þess, að það sjáist nú brátt, eftir að þing er komið saman, hvernig flokkaafstaða verður, og hverjar eru óskir meiri hluta þings um skipan ráðherrastöðunnar. Bað hann mig að láta sig vita, hverju fram yndi um þetta efni. Jeg vil því biðja háttv. þingmenn að taka þetta til íhugunar og láta mig síðan vita niðurstöðuna, svo að jeg geti skýrt konunginum frá henni.

Til þess að spara þinginu tíma hefi jeg áformað að leggja stjórnarfrumvörpin fram í deildunum þegar í dag, á fyrsta fundi deildanna, þegar þær eru sestar á laggirnar, og bið jeg væntanlega forseta að ætla mjer svigrúm til þess.