10.08.1914
Efri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

78. mál, sjóvátrygging

Framsögumaður (Karl Einarsson) :

Í Nd. hafa verið gjörðar 45 breytingar alls á frumv., og þegar það var hjer í deildinni. var því breytt á margan veg, svo að nú eru breytingarnar orðnar eitthvað á hundrað. Samt sem áður hefir einn hv. þm. hjer komið með 6 brtt. í viðbót. Það eru alt orðabreytingar og með því að þær raska ekki efni málsins, en munu vera til bóta frá sjónarmiði Nd., get jeg verið þeim meðmæltur. Eins og sjest á þgskj. 436 leggur nefndin til að frumv. verði samþykt, enda eru allar breytingar Nd. orðabreytingar, nema við 25. gr. Þar eru tvær efnisbreytingar, sem líklega hafa slæðst inn af vangá, og verður að lagfæra þær. Í fyrstu málsgrein 25. gr. segir, að ef breytt sje ferð þeirri, „sem tilgreind var, þegar vátryggingarsamningurinn var gjörður, og sú breyting verður áður en ábyrgðarsali á neitt á hættu, þá er ábyrgðarsali úr allri ábyrgð, ef skip og farmgjald hefir verið vátrygt fyrir hönd útgjörðarmanns“. En önnur málsgrein byrjar svo: „Nú er farmgjald vátrygt fyrir hönd annars manns, eða aðrir hagsmunir en skip og farmgjöld“ o. s. frv. Það sjer hver maður, að ef orðið „skip“ fellur hjer burt, þá verður glompa í þessari málsgrein, því að þá vantar þar ákvæði um vátryggingu skips, en það hefir þó ekki verið meiningin. Nefndin vill því ráða háttv. deild til þess að samþykkja 1. og 2. brtill. á þgskj. 436. Þá er 3. brtt. við 3. málsgrein sömu greinar, þar hefir orðið „eða“ verið sett í staðinn fyrir „og“ og veldur það efnisbreyting. Nefndin leggur til að orðið falli burt, því að meiningin haggast ekki, þó að „og“ sje ekki sett inn aftur. Jeg hefi nákvæmlega athugað dönsku siglingalögin og er brtt. í fullu samræmi við þau. Nefndin vonar því að háttv. Ed. samþykki einnig þessa brtt. — Loks vil jeg benda á 2 prentvillur. Önnur er í 10. gr., „er“ fyrir : „eru“, hin er síðasta orð í 1. málsgrein 30. gr., „þeim“ fyrir: „því“. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál.