30.07.1914
Neðri deild: 25. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

89. mál, friðun héra

Einar Arnórsson:

Eg get verið stuttorður að þessu sinni. Það er einkennilegt við þetta nefndarálit, að í því er alt tilfært á móti málinu, en ekkert með því, enda man eg ekki betur, en að háttv. framsögum. (G. H.) tæki það fram berum orðum, að nefndin vildi enga ábyrgð taka á þessu frv. En úr því að nefndin er svona óviss, þá sýnist mér það vera sjálfsagður hlutur, að deildin fari ekki heldur að taka á sig þá ábyrgð, sem leiðir af því að samþ. þetta frumv. Sumir segja, að eitthvert gagn megi hafa af þessum kvikindum. Þau eru sögð góð átu, og þá er bjórinn sjálfsagt einhvers virði, en líklega mun þó veiðimannsánægjan vera mest. En eg skil ekki, að þessi gagnsemi héranna sé svo mikils virði, að rétt sé að stofna í þá hættu, að þeir geri oss ef til vill langt um meira tjón.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) gat um vírnet skógræktarstjórans. Það held eg að gæti orðið þungur baggi að girða alla gróðrarreiti með vírnetum, og auk þess myndi það tæplega að haldi koma, því að hérarnir gæti sjálfsagt farið yfir þau á vetrum þegar snjóar eru og grafið sig undir þau á sumrum.

Eg býzt nú við að sumir þeir, sem greiddu atkvæði með málinu til 2. umr. með nafnakalli, áliti sig bundna við sitt »já«. En þar sem málinu er svo komið, að sumir eru einbeittir í að samþykkja það, en aðrir jafnákveðnir í að fella það og þriðji flokkurinn óráðinn, þá álít eg vel við eigandi að afgreiða málið með svohljóðandi rökstuddri dagskrá :

Með því að mál þetta virðist ekki horfa til neinnar verulegrar gagnsemi landi og lýð, enda eigi nægilega upplýst, þykir deildinni ekki ástæða til að taka ákvörðun um það, og tekur hún því fyrir næsta mál á dagskrá.