03.08.1914
Efri deild: 30. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

89. mál, friðun héra

Júlíus Havsteen:

Jeg þykist geta talað með í þessu máli af töluverðri þekkingu. Jeg hefi dvalið alllengi í Danmörku, lengur en flestir eða allir aðrir hv. þingdm., og hefi þó aldrei heyrt þar kvartað undan, að hjerar gerðu tjón, hvorki á graslendi nje skógum. Þeir læðast að vísu stundum inn í kálgarða, en þó er enginn hætta á því, ef hundur er til að verja þá. Það er töluverður matur í hjerunum og þykir flestum hann góður. Það er undarleg hræðsla, sem hjer hefir komið fram hjá sumum við þessi dýr, sem eru í öllum nálægum löndum, og þar á meðal í Grænlandi. Það er ekki svo mikið af ferfættum dýrum hjer í landi, að ástæða sje til að amast við þó þeim fjölgi, þegar ekki verður sýnt fram á að það sjeu skaðsemdardýr, og jeg þykist tala af reynslu, er jeg segi, að hjerarnir sjeu það ekki.