03.08.1914
Efri deild: 30. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

89. mál, friðun héra

Steingrímur Jónsson:

Það hafa orðið allmiklar þrætur um þetta litla frv. í háttv. neðri deild, og máske á eins hjer að fara.

Jeg játa það strax, að jeg er ekki hjerafróður maður.

En eins og við kvörtum yfir, að landið okkar sje fátækt, eins er ástæða til að kvarta yfir, að það sje fátækt að veiðidýrum. Hjer er nú komið fram tilboð um, að flytja hingað veiðidýr, sem allar nágrannaþjóðirnar hafa mætur á.

En það liggur í augum uppi, að ekki er til neins að flytja það inn, ef undir eins má drepa það takmarkalaust, því eru þessi friðunarlög bráðnauðsynleg, ef á annað borð á að hugsa um innflutning hjeranna. Jeg spyr: Hvaða skynsamleg ástæða getur verið til þess, að liggja eins og hundar í jötu fyrir því, að tilboðinu sje tekið, og sporna á móti því að maður sá, sem tilboðið hefir gjört af góðum hug til okkar og sjálfsagt með góðri þekkingu á hjerunum og lifnaðarháttum þeirra, hvaða meining, segi jeg, er í því, að gefa honum ekki kost á að vinna okkur gagn?

Menn segja, að aldrei geti orðið mikið gagn að hjerunum, það sje svo lítill matur í þeim. En jeg vil benda á, að það er ekki matarverðið eitt, sem hjer kemur til greina; svo er t. d. um laginn; það er ekki eingöngu matarverð hans, sem gjörir veiðiárnar svo verðmiklar, heldur engu síður hitt, hve mikið veiðimenn gefa fyrir sjálfan veiðirjettinn. Eins gæti farið hjer, að veiðimenn vildu borga töluverðu þá ánægju, að mega veiða hjerana.

Menn segja, að hjerarnir gjöri tjón; en jeg skil ekki í, að Danir, svo hygnir búmenn, sem þeir eru taldir, væru að friða hjera hjá sjer, ef þeim þættu þeir mjög skaðlegir. Líklegt er, að þeir telji skaða þann, sem hjerarnir kunna að gjöra, ekki vega upp á móti gagninu og ánægjunni af þeim.

Mjer er það yfir höfuð óskiljanlegt, að hjerar gjöri hjer verulegt tjón, því að jeg hefi heyrt, að helst skemdu þeir blómgarða og aldingarða.

Jeg verð að segja, að það gleður mig jafnan, er einhver vill leggja eitthvað af mörkum fyrir land vort, ekki síst, ef það er óviðkomandi maður; og það snertir mig óþægilega, þegar jeg sje menn ástæðulítið amast við því; og eftir umræðunum í háttv. Nd. fæ jeg ekki betur sjeð en hjer sje ástæðan ekki sterk, til þess að rísa gegn frumvarpinu. Mun jeg því greiða atkvæði með því, að það gangi til 2. umr.