05.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

89. mál, friðun héra

Karl Finnbogason:

Mjer þykir næsta undarleg þessi hjerahræðsla, sem svo mjög ber á í þinginu. Ef vissa væri fyrir því, að hjerar væru meira til tjóns en gagns, væri einsætt að banna innflutning þeirra. En þessi vissa er ekki til. Eins og hv. þm. Skagf. (J. B.) tók fram, vita menn engin dæmi þess, að styrjöld hafi verið hafin, hjerum til útrýmingar, í þeim löndum, sem þeir lifa í. Eftir því virðast þeir ekki illa þokkaðir af þeim, sem þekkja þá og búið hafa við þá. Síður en svo. Þeir eru einmitt friðaðir mestan hluta árs á Norðurlöndum og víðar. Á reynslu annara þjóða getur því hjerahræðsla þingsins ekki bygst. Hjer á landi er engin reynsla fyrir því, hvort hjerar yrðu til gagns eða tjóns. Hjerahræðslan stafar því hvorki af innlendri nje útlendri reynslu eða vissu, heldur að eins af óvissunni. Það er nú vanalega svo, að menn eru hræddastir við það, sem þeir vita ekki, hvað er. Af því stafar t. d. myrkfælni. Hjerahræðslan mun stafa af svipuðum orsökum og myrkfælnin. Myrkfælnum manni var eitt sinn gefið það ráð, að hann skyldi standa kyr og telja til tíu í hvert skifti, sem hann yrði myrkfælinn að mun. Hann gjörði þetta. Og myrkfælnin fór af honum.

Vera má, að þeim háttv., þm. sem minst er um hjerana og hræddastir eru við þá, væri heillaráð að bíða við nokkuð og telja til 5–10 ára, svo að hjerarnir fengi að sýna sig og reynast hjer. Jeg býst við, að þá færi hræðslan af þeim. Í þessu máli sem öðrum verður sá, sem að rjettri niðurstöðu vill komast, að hafa þrek og þor til að „ganga úr skugga“ um málið

Aðalástæðurnar, sem færðar hafa verið gegn hjerunum, eru: ad þeir muni skemma ræktað land — einkum matjurtagarða og skóga.

Gegn þessum ástæðum vil jeg benda á það, að tún og matjurtagarðar eru ekki nema um 3/l000 og skógar 2/l000 af öllu flatarmáli landsins. Þó nú yrði að verja öll tún, garða og skóga landsins fyrir hjerunum, er það þó ekki nema um 1/2% af flatarmáli landsins, eða 1% af nothæfu landi, þegar jöklar og öræfi dragast frá.

Lítið er gjört úr þjóðinni, ef hún á ekki að geta varið fyrir hjerunum 1% af nothæfa landinu, eða 1/2% af landinu sínu.

Það er sagt, að það yrði dýrt að girða alt þetta land, og mun það satt vera. En slíkt kemur ekki til mála. Það eina, sem komið gæti til greina að girða, eru matjurtagarðar og gróðrarstóðvar. En jeg vil benda á, að það má verja garðana með hundum á sumrum, og þá er hverjum hundi út sígandi. Á vetrum þarf ekki að verja garðana. Hjerar eru mjög hræddir við hunda, annars mundu þeir halda sig mest upp til fjalla á sumrum. Þar hafa þeir nóg af mýrgresi og berjum og þykir hvorttveggja gott.

Það yrðu því að eins skógarnir — eða gróðrarstöðvarnar, sem gæti stafað veruleg hætta af hjerunum.

En bæði er það, að skógarverðir eiga að gæta gróðrarstöðva árið um kring, og svo ætti ekki að vera ókleift að girða gróðrarstöðvarnar tryggilega.

Ekki er eyðandi orðum að þeirri ástæðu gegn frumvarpinu, að hjerarnir grafi landið svo í sundur, að það blási upp. Mjer þykir það undarlegt og óskiljanlegt, að þeir sem vilja friða erni, er geta tekið lömb og jafnvel börn frá mönnum, að eins til að vita þá lifa og ef til vill sjá þá örsjaldan á æfinni, skuli ekki vilja flytja í landið og friða hjera, sem óneitanlega mætti verða gagn að og gaman.

Það er mjer jafn undarlegt og óskiljananlegt, að þeir sömu menn, sem vilja friða rjúpur, sem þó óneitanlega skaða skógana mjög í harðindum, með því að bíta barrið og kvistina yngstu, skuli vilja verja hjeranum land, vegna þess, að þeir kunni að spilla skógunum eitthvað.

Hvernig sem jeg velti málinu fyrir mjer, sje jeg eigi annað en rangt sje og þarflaust með öllu, að sýna þeim manni, er boðist hefir til að flytja hjerana hingað inn, þá ókurteisi að banna innflutning á þeim. Ekki þarf jeg að taka það fram, hvaða gagn getur orðið af hjerunum, það hafa aðrir gjört. En jeg vona, að 40 þingmenn verði ekki svo illa hugaðir, að þora ekki að leyfa innflutning 40–50 hjera. Það væri eftirminnilegt, ef allur þingheimur hræddist svo mjög ekki voðalegri skepnur en veslings hjerana.