07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

89. mál, friðun héra

Björn Þorláksson :

Jeg minnist þess nú, er mál þetta er hjer til umræðu, að flestir hafa byrjað mál sitt á því, að þeir væru ekki hjerafróðir. Þrátt fyrir það hafa þeir haldið langar ræður með og móti málinu og að síðustu greitt atkvæði með og móti málinu, eins og þeir væru alveg vissir um, hvað væri hið rjetta, eða eins og hjer væri um eitthvert það smámál að ræða, er á sama stæði um, hvernig færi. Jeg hygg, að mjer verði því ekki tekið illa upp, þó að jeg segi nokkur orð um þetta mál, enda þótt jeg sje ekki hjerafróður.

Við 1. og 2. umr. greiddi jeg atkvæði móti frv. fyrir þá sök, að mjer virtist sú leiðbeining, er nefndarálitið í Nd. gaf, benda til, að þetta frv. ætti eigi fram að ganga.

En þegar ég sá, að frv. flaug áfram við 2. umr. með miklum atkvæðamun, þótt ekkert væri sagt, sem styddi það, að málið ætti fram að ganga, þá fór jeg og aflaði mjer upplýsinga um það. Og það set jeg hjer fram.

Til eru mjög margar hjerategundir, mismunandi harðgjörðar, og eru líkur til að hjer á landi geti að eins lifað hinar harðgjörðari, eða þær, er vanar eru miklum harðindum, kulda og snjó um margar kynslóðir. Jeg tel sjálfsagt, að sá maður, sem boðist hefir til að flytja hjerana hingað, veiðistjóri Havsteen, mundi velja þá af hinum harðgjörðari tegundum, frá Færeyjum og Noregi. Líklega hefir þetta boð verið gjört eða borið fram við frænda hans, fyrverandi ráðherra, og af því hygg jeg, að sje sprottið fylgi það, er mál þetta hefir fengið meðal ýmsra þingmanna, er lítið hafa um það hugsað, hvaða afleiðingar það hefði, ef frv. yrði að lögum.

Hjerar eru nagdýr á stærð við kött. Þeir vega fullvaxnir 8 pund lifandi. Kjötið af þeim vegur um 4 pund. Kemur þetta heim við það, sem ein háttv. frú hjer í bænum hefir sagt mjer, að einn hjera mætti leggja til matreiðslu á við 8–4 rjúpur. Kona sú hefir oft matreitt hjera. Skrokkarnir hafa verið fluttir hingað frá Færeyjum og kostað 50 aura, svo og frá Danmörku. Þeir þola ekki einungis langa geymslu, heldur batna við það, að í þá slái, eða þeir úldni, alveg eins og er með rjúpur. Þegar á að matreiða þá, eru þeir látnir liggja í mjólk eitt dægur og því næst steiktir í mjólk. Og svona tilbúnir þykja þeir heldri manna matur.

Eflaust eru þeir vel ætir, þó að öðruvísi sje með þá farið, enda mundu þeir reynast almenningi dýr fæða með slíkri matreiðslu, er hjer var nefnd.

Hvaða gagn er nú að hjerunum? Það er aðallega kjötið, og það er ekki nema á við 3–4 rjúpur.

Mjer er nú spurn: Er nú nokkur þörf á að flytja inn hjera til að hafa meira kjöt í landinu eða til útflutnings? Jeg held ekki. Með 1–2 skotum getur maður aflað sjer rjúpnakjöts, er jafnast á við einn hjera að þyngd og gæðum, og er til útflutninga kæmi, helmingi verðmætara, er miðað er við verð á færeyskum hjeraskrokkum. Enda alveg óvíst, að hjerakjöt hjeðan mundi seljast til útlanda, þó hjerar kæmust hjer upp og yrðu veiddir, er stundir líða fram.

Engin nauðsyn virðist á því, að auka kjötframleiðslu á þennan hátt. Vjer getum aflað oss meira kjöts, hvort heldur er til neytslu eða tilútflutnings á annan og áhættu minni veg. Jeg skal seinna taka fram, hvað jeg meina með því að segja „áhættuminni“.

En er ekki annað gagn af hjerunum en að það má eta þá? Jú, eflaust. Skinnið og hárið mun vera nokkurs virði, en ekki mikils. En jeg get hugsað mjer, að einhver formælandi frv. segi, að það sje næsta gaman að skjóta hjera. Hjer á landi sjeu svo fá veiðidýr, og að nauðsyn beri til að fjölga þeim, menn geti lært skotfimi við það.

Jeg skal kannast við það, að skotfimi sje skemtileg íþrótt, og að menn geti lært skotfimi á veiðum.

En jeg get ekki kannast við að skotfimi sje oss Íslendingum svo nanðsynleg. Ef við værum hernaðarþjóð, eða ef við værum komnir á það menningarstig, að við vildum ráðast á nágranna okkar, t. d. Færeyjar fyrst og reyna oss á þeim og síðan á Dönum, þá gætu hjeraveiðar verið oss góð æfing. Og þær gætu líka verið til annars, til að gjöra okkur grimmari. Jeg hygg nú, að flestir, ef ekki allir, þingdeildarmenn játi það þó með mjer, að ekkert sje í raun og veru andstyggilegra en það að drepa dýr eða fugla einungis sjer til gamans, og að þeir kannist við að slíkt mundi gjöra oss ómannúðlegri hvorn við annan.

Jeg hefi nú talað um gagnsemdina af hjerunum, og jeg hefi ekki sjeð, að hún væri mikil. Jeg segi gagnsemdina, því að hún ein — og annað ekki getur mælt með því, að þeir sjeu fluttir inn í landið.

Þá skal jeg minnast á skaðsemdina, er af þeim leiðir. Og ef hún reynist meiri en gagnsemdin, sjá allir hugsandi menu, að frv. á ekki fram að ganga. Þá vil jeg fyrst minna á, hvað nefndarálit Nd. segir um þá, Jeg skal með leyfi forseta lesa það upp : „Landmandsbogen telur þá mjög skaðleg dýr. Brüel: „Bidrag til det praktiske Skogbrug“ segir þá nærgöngula í harðindum, geta alt, sem tönn festir á, engar girðingar haldi þeim nema þjett net, sem óvíðast verði komið við og engin leið til þess að útrýma þeim, nema skjóta þá. Collet: „Norges hvirveldyr“ segir þá hafast mest við í skóglendi, jeta allskonar grös, helst smára, ber, en líka mýrgresi, bita nýgræðing í skógum, naga börk af birki og reynivið, einkum í harðindum. Þá leita þeir oft á nóttum inn í kálgarða og eru sólgnir í kál“. Við þetta hefði mátt bæta því úr Collet, að í harðindum stýta þeir niður við sjóinn, það er upp úr stendur af ungum birkitrjám.

Þrátt fyrir allar þær upplýsingar, er nefndin hefir fengið, telur hún líklegt, að gagn verði að hjerunum, og er því ekki mótfallin því, að frv. sjé samþykt.

Líklega hefir nefndin komist að þessari makalausu niðurstöðu, af því að hún leitaði álits skógfræðings Kofoed-Hansen um málið. Jeg ætla að leyfa mjer að lesa það upp og ætlast til að skrifararnir, færi brjefið inn í ræðu mína, til þess að lesendur Alþingistíðindanna, er lesa kunna um þetta mál, sjái hvernig farið var að álykta á því herrans ári 1914:

Þar sem 2 alþingismenn hafa skorað á mig, að láta í ljós skoðun mína viðvíkjandi innflutningi á hjerum, skal jeg taka fram það, sem hjer kemur:

Í þeim löndum, þar sem þessi veiðidýr eiga heima, álíta skógræktarmenn svo að þau gjöri talsverðan usla í ræktuðum skógum, með því að bíta plönturnar í nýstofnuðum gróðrarstöðvum. Þetta gjöra þau þó varla í stórum stýl, nema í hörðum vetrum, þegar skortur er annars fóðurs, og geta þau þá stundum líka flysjað börkinn á ungum trjám. Oft kemur fyrir, að hjerar fara á nóttum inn í kálgarða, og jeta af káli og öðrum plöntum, og geta þá valdið mönnum tjóni á þann hátt. Hinsvegar er óhætt að fullyrða, að hvergi mundu menn óska, að missa hjerana, þó að þessi dýr stundum geti gjört skaða.

Í ræktuðum skógi hjer á landi geta hjerar gjört skaða að eins í græðireitum, en hjer er um smá svæði að ræða, svo að hægt væri, að vernda þau fyrir hjerum, með því að setja upp vírnet. Hið sama má segja um kálgarðana.

Að því er snertir óræktað land, þá mun sá skaði, sem hjerarnir geta gjört, ávalt vera lítilvægur í samanburði við þann, sem sauðfe gjörir á gróður landsins.

Loksins væri hægt að gjöreyða hjerunum, þegar menn vilja ekki hafa þá lengur í landinu, en mörg ár mundu líða, áður en slíkt yrði nauðsynlegt. Jeg vil þess vegna mæla fram með því, að hin fyrirhugaða tilraun, að flytja inn hjera í landið, sje framkvæmd sem fyrst.

Reykjavík 17. júlí 1914.

Virðingarfylst

A. F. Kofoed-Hansen.

Til Alþingis.

Svo hljóðar þá brjefið. Skógfræðingurinn kannast við, að ýmsar skemdir geti orðið af völdum hjera, en dregur rangar ályktanir af því. Það lítur út fyrir, að nefndin hafi trúað skógræktarstjóranum í blindni, eða rjettara sagt ályktunum hans, en ekki athugað forsendurnar sem voru þær, að hjerarnir skemdu talsvert, eins og nefndin líka hafði annarstaðar aflað sjer vitneskju um. Mjer er ókunnugt um, hvernig skógræktarstjórinn; rækir starf sitt. En það verð jeg að segja,. að ef hann gjörir það eins myndarlega og hann hefir svarað þessari fyrirspurn, þá fær hann ekki ágætiseinkunn fyrir frammistöðuna. Ef forsendurnar hefðu verið, að hjerarnir skemdu ekkert, þá hefði ályktun skógfræðingsins verið laukrjett, ekkert við hana að athuga. Ef maður hefði ekki lesið það annarstaðar, að hjerarnir skemdu, þá tæki maður ekkert mark á þessari upplýsingu. Jeg tel brjef hans markleysu, sem ekkert verður bygt á, hvorki til nje frá.

Á undan skógfræðing Kofoed var hjer maður að nafni Flensborg, er ætla má, að hafi haft vel vit á skógrækt, og því getað dæmt um, hvort hjerar væru skaðlegir skógum og skógrækt. Jeg átti í fyrradag tal við Bjarna skólakennara Sæmundsson um þetta efni. Hann sagði mjer, að Flensborg hefði farist svo orð við sig, er minst var á skógrækt og hjera, að Íslendingar yrðu að velja milli hjera og skóga. Hjer væri ekki að tala um skógræt, ef hjerar væru fluttir inn og ílendust hjer.

Þessi ummæli Flensborgs sanna ef til vill frekara en þær upplýsingar, er nefndin í neðri deild hefir aflað sjer í áreiðanlegum bókum. Það sem skógræktarstjóri Kofoed segir, sannar ekkert. Svo er því engum vafa bundið, að skógar vorir eru í voða, ef hjerarnir yrðu fluttir til landsins og friðaðir.

Á fjárlögunum nú eru veittar 15 þúsund krónur á ári til skógræktar a: handa skógræktarstjóra, skógarvörðum og til skóggræðslu. Landssjóður gæti sparað sjer þetta fje, ef hjerar kæmust upp í landinu. Sumum kann að líka þetta vel. Það mætti vera þessu fje til að stofna 5 kennarastóla við háskólann og fæða með því 5 dósenta. Jeg segi sumum, en sem betur fer, mundi ekki öllum líka það.

Jeg hefi að eins einu sinni á æfinni komið til útlanda. Þótt jeg sæi þar margt, er jeg hafði aldrei sjeð áður, sá jeg að eins eitt, er jeg öfundaði þau af. Það voru skógarnir, ekki þessi stóri hrikalegi skógur, heldur smái skógurinn, sem verið var að græða landið upp með, klæða með fjallshlíðarnar, fóðra með klappirnar. Jeg hugsaði þá heim til landsins míns og óskaði svo heitt, að það fengi smátt og smátt að klæðast skógi. Jeg hefi líka stundum reynt, hve mikla ánægju það veitir, að sjá gróðurlítið og bert holt breytast á stuttum tíma í græna grasivaxna sljettu. Jeg hygg, að manni fari þá fyrst af alvöru að þykja vænt um landið sitt, þegar honum hefir tekist að klæða það með grænu grasi eða laufríkum skógi.

Því er það furðanlegt, að menn skuli geta verið svo blindir, að gjöra ráðstafanir, sem ekkert verulegt gang getur af orðið, en ákaflega mikið tjón getur af staðið fyrir eitt hið nauðsynlegasta og þýðingarmesta fyrirtæki í landinu, en það er skógræktin. Jeg ætla mjer ekki að fara að útlista þýðingu hennar. En henni er stór hætta búin af hjerunum, ef mikið yrði um þá hjer. En mjer mun verða svarað af hjeravinunum á líkan hátt sem skógræktarstjórinn gjörir í brjefi sínu. Hann segir að fyrirbyggja megi skemdir af hjerum, með því að girða með vírnetjum, bæði græðireiti og kálgarða. Eflaust mætti gjöra þetta, en það kostar fje. Vírnetjagirðing er dýr, og netin þurfa að vera þjett, til þess að hjerarnir smjúgi ekki, og eflaust nokkru hærri en vanalega, til þess að þeir stökkvi eigi yfir, og hver tryggir það, að hjerinn geti ekki grafið sig undir girðinguna? Hjerinn er ákaflega ljettur, stekkur gríðar langt og í viðlögum nokkuð hátt.

Af orðum skógræktarstjórans er svo að sjá, sem hjerar gjöri ekki skaða í vanalegum skógi, sem þó er á flestum stöðum girtur fyrir sauðfje, eins og t. d. Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur. En á þessu er tæplega takandi mark. Það má ganga að því vísu, að hjerinn mundi geta valdið skemdum í skógi, svo sem Hallormsstaðaskógi. Sá skógur hefir nú um nokkur ár verið vírgirtur fyrir sauðfje og hefir síðan blómgast svo vel, að hann er orðinn allur annar. En girðingin fyrir honum og öðrum slíkum skógum hjer á landi gegn sauðfjenaði yrði gagnslaus gegn hjerum. Það þyrfti að girða þá skóga af nýju og það með afarháum vírnetjum, og yrði það ókleifur kostnaður. Hver yrði að borga þann kostnað? Landssjóður yrði eflaust að gjöra það alstaðar, þar sem landið á skóga eða græðireiti, sem girða þyrfti. Yrði það þegar í fyrstu lagleg upphæð, þótt ekki yrði girt önnur svæði en þau, sem nú eru virgirt. En landsjóður mun hafa nóg fje til þess, og er ekki til þess sparandi, kunna hjeravinirnir að segja, vegna hinnar miklu gagnsemi þeirra að öðru leyti.

En girðingar fyrir skógum og græðireitum og matjurtagörðum einstakra manna, yrðu eigendur sjálfir að kosta. Og gæti jeg vel trúað, að þegar til þess kæmi, mundu hjeravinir ekki uppskera miklar þakkir af almenningi fyrir, að hafa samþykt þessi óviturlegu hjeralög. Jeg minnist hjer latnesks orðtækis; „Quicquid agis, prudenter agas et respice finem“. Það er á íslensku :

Varfærinn þú ver um alt vel um endann hugsa skalt.

Jeg held að þessi áminning eigi hjer fyllilega við. Hjer er verið að flana út í vitleysu; gagnið af hjerunum er ekki teljandi, en hættan afarmikil og áreiðanlega viss, ef hjerarnir þrífast hjer.

Það verður ekki aftur tekið, ef hjerum nær að fjölga hjer.

Jeg hefi ekki sjeð, svo jeg get ekki með vissu fullyrt um það, hvenær hjerinn verður tímgunarfær. En það mun hann verða 1–2 missira gamall. Hann gengur með í mánuð og gýtur vanalega þrisvar á ári og á 3–4–5 unga í senn. Ungarnir fæðast alloðnir, alsjáandi og eru strax fljótir í ferðum og sjálfbjarga. Ef alt afkvæmi hjeranna lifði, yrðu þeir skjótt landplága. Hjerinn á í útlöndum marga óvini; sem halda fjölgun hans í skefjum. Í Noregi eru það tófan, gaupan, örninn og fleiri dýr. Af þessum dýrum höfum við einungis tófuna. Örninn getur ekki talist; hann er að verða svo fágætur og fátíður hjer, að hann mundi ekki tefja fyrir fjölgun hjeranna. Hjá okkur er tófan eina dýrið, sem mundi gjöra það. Og þó í fyrstu ekki á öllum svæðum landsins. Í sumum sveitum, þar sem þó er talsvert fjallendi, sjest tófa ekki framar. Þar mundi hjerum fjölga afarótt, ef þeir gætu lifað hjer á annað borð. Í bók, sem jeg hefi við höndina, sje jeg, að ef alt afkvæmi hjeranna lifði, myndi á 3. ári um 1000 hjerar hafa æglast út af einum hjerahjónum. Það er svo um öll nagdýr, að þeim fjölgar afarfljótt, þannig t. d. koma 800 rottur út af einum rottuhjónum á ári, ef alt lifir.

Jeg hefi talað um skaðsemd hjeranna fyrir skógrækt og garða og um þann kostnað, er menn mundu hljóta að gjöra, til að varðveita fyrir þeim skóga og garða, og það mundi jafnvel. verða ókleift.

Jeg vil skoða hjerana í sambandi við tófuna, eina dýrið hjer á landi, er myndi að nokkrum mun halda í skefjun fjölgun þeirra. Það er engum vafa bundið, að tófur, þar sem þær eru, mundu drepa hjerana ákaflega og lifa betra lífi en þær hafa vanist. Og jeg verð að ætla það ekki einungis mjög líklegt, heldur jafnvel alveg víst, að fyrir það mundi tófum fjölga að mun og þær breiðast út um landið til þeirra hjeraða, þar sem þær nú ekki sjást. Hvað er það, er mest hefir fækkað tófum hjer á landi á seinni árum? Það er eitrun. Um það kemur öllum saman. En það hefi jeg heyrt fjölda marga athugula og eftirtektasama bændur segja, að gagnið af eitruninni verði best í hörðum vetrum, þegar tófunni verður erfitt til matfanga, og varla nokkuð annars. Það er ofureðlilegt. Ef. tófan hefði: nóg af hjerum til að lifa á, þá mundi hún oftast fara hjá eitruðu hræunum; við það mundi henni fjölga. Hvorki finnast á vorin öll gren nje verða unnin; því fer svo fjarri. Og ekki einungis mundi tófunni þegar fjölga alstaðar, þar sem hún nú er; hún mundi líka útbreiðast þangað, sem engin tófa sjest nú, einkum ef þar væru fyrir hjerar.

En því fleiri sem tófurnar verða, því meiri verður hætta fyrir sauðkindurnar. Jeg hefi heyrt því fleygt fram, jeg veit ekki hvort heldur í gamni eða alvöru, en í gáleysi hefir það verið gjört, að tófur mundu hætta að leggjast á lömb, þegar þær hefðu hjera. Þetta tel jeg fjarstæðu. Þótt hjerakjötið sje talið lostætt, þá mundi lágfóta ekki lítilsvirða lambakjötið okkar fyrir það.

En hvað leiðir þá af þessum athugunum? Ekki annað og hvorki meira nje minna en það, að sauðfjárræktinni okkar, þessari annari aðalatvinnugrein Íslendinga, mundi standa afarmikil hætta af því, ef hjerar næðu að ílendast hjer.

Og þá hættu eina tel jeg svo mikla, að þótt ekki væri um neina skemd að ræða af hálfu hjeranna á skóglendi og görðum, þá geti ekki komið til nokkurra mála, að leyfa innflutning þeirra hingað, og því síður að friða þá. Já, þingið hefði miklu fremur átt að banna innflutning hjera til Íslands, nema í eyjar, þar sem þeir gætu ekki synt til lands; þeir eru ekki sundfráir, synda mest 50 faðma, og þar sem hafís kemur ekki, til að brúa sundin, ná þeir ekki til lands; slík bannlög hefði þinginu verið nær að afgreiða en þessi óviturlegu og skaðlegu friðunarlög, sem hjer eru að fæðast.

Jeg skal hafa stuttlega upp aftur efni þess, sem jeg hefi sagt.

Gagnið af hjerunum er afarlítið. Skemdir af þeim á skóga og garða miklar, nema kostnaður, oft nær ókleifur, sje gjörður til að varna þeim. En mesta tel jeg hættuna, þá óbeinu hættu, er af þeim stafar fyrir sauðfjeð.

Þótt þingsaga mín sje ekki löng, og sje nú á enda þessa dagana, þá hefi jeg mjer til skapraunar sjeð þess nokkur dæmi, að málum er flaustrað áfram, hugsunarlaust um afleiðingarnar, og að atkvæði eru greidd af góðsemi við einstaka menn, eins og þeir hafa óskað. Og jeg sje þess dæmi nú, þessa seinustu daga þingtíðar minnar. Jeg ætla mjer ekki þá dul, því fer fjarri, að háttv. þingdeildarmenn sannfærist af ræðu minni og greiði nú atkvæði öðru vísi en þeir gjörðu við fyrri atkvæðagreiðslur um þetta mál. Jeg er ekki kominn hingað til að sannfærast, sagði maðurinn um árið. Og var mikið að honum skopast fyrir það. Jeg held, að sumir okkar þingmannanna gætu á stundum tekið undir þessi orð, ef þeir vildu vera hreinskilnir. Jeg hefi gjört hjer skyldu mína, að reyna að skýra þetta mál fyrir hinni háttv. deild á síðustu stund. Jeg iðrast eftir að jeg gjörði þessa tilraun ekki fyr. En betra er seint en aldrei. Og mjer er það hugfróun að hafa gjört skyldu mína nú í þessu máli, sem margir kalla smámál, en jeg kalla stórmál, vegna afleiðinganna í framtíðinni.

Jeg hefi að eins eina kröfu, og er hún um breytingartillöguna, sem jeg á á þgskj. 366. Breytingin er einungis sú, að 20 færist niður í 10. Menn sjá, að 2. gr. frumvarpsins leggur 20 kr. sekt við, ef hjeri er drepinn eða veiddur. Nú er það víst, að hjerar sækja á matjurtagarða og það gjöra þeir helst á nóttunni; eins og önnur nagdýr sjá þeir mjög vel í myrkri og eru þá helst á ferð. Þá er það líka víst, að margur, sem á matjurtagarð, sæmilega girtan fyrir þeim skepnum, er hjer eru nú, mundi ekki treysta sjer til að kosta til nýrrar girðingar gegn hjerum. En hund kynni hann að hafa til að siga skepnum úr garðinum. Gæti þá svo atvikast, að slys yrði og hundurinn dræpi hjera. Jeg hef vitað hunda drepa ketti. Og eins gæti orðið um hjera. Nú verður eigandi

hundsins að bera ábyrgð á gjörðum hans. Og finst mjer það þá óhæfilega há sekt, að verða að greiða 20 kr. fyrir þetta. Ef til vill hefir hundeigandinn keypt hundinn fyrir 10 kr., og það eingöngu til að gæta garðsins, og ef til vill verður hann að borga árlega skatt af honum með 10 krónum. Fyrir utan þetta eru 20 krónur óvenju há sekt í samanburði við sektarákvæðin í friðunarlögum fugla. Þar er t. d. tveggja kr. sekt lögð við að skjóta rjúpu á friðunartíma hennar. Ef hjerinn er borinn saman við rjúpu og miðað er við kjötmagn beggja, þá ætti að vera nóg að ákveða sekt fyrir hjeradrápið 3–4 kr. Jeg hefi þó ekki árætt að fara neðar en í10 kr. með niðurfærslu sektarinnar.

Mál mitt enda jeg með þessu þrennu :

1. Þeirri áreiðanlegu og rökrjettu staðhæfingu, að af frv, standi hætta fyrir skógrækt vora og sauðfjárrækt.

2.Með sannmælinu : ekki veldur sá er varar, og

3. Með heilræðinu:

„Qvicquid agis, prudenler agas ei respice finem“ a: varfærinn þú ver um alt, vel um endann hugsa skalt.