07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

89. mál, friðun héra

Karl Einarsson:

Jeg ætlaði aðeins að lýsa því yfir, að jeg mun greiða atkvæði með breytingartillögunni, af því að jeg álít að hún bæti frumvarpið, en jeg mun samt greiða atkvæði á móti frumvarpinu. Það er nú búið að sýna fram á, hvað hjerarnir eru skaðleg dýr, svo að deildin gengur ekki að því gruflandi, hvað hún samþykkir. Að því er sektunum viðvíkur, þá veit jeg ekki betur en að það sje 2 kr. sekt fyrir að drepa svani, og er þó hver svanur miklu meira en 2 króna virði. Jeg sje því ekki að það sje ástæða til að leggja 20 kr. sekt við því að drepa jafnlítilfjörlegt dýr sem hjerarnir eru, og jeg held að rjett væri að ákveða sektina 2 kr. Jeg mun samt ekki koma með brtt. þess efnis.