07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

91. mál, strandgæsla

Guðmundur Björnsson:

Jeg skil vel, að háttv. 1. kgk. (J. H.) hjelt, að það gæti ekki komið til mála, að jeg bæri nokkurt skynbragð á heftingu sandfoks. Hitt er annað mál, að sumir menn hafa eyru, en heyra ekki, augu, en sjá ekki, greind, en gá ekki að því, sem í kring um þá er og gjörist. Jeg er ekki í þeim flokki. Það er satt, að jeg hefi ekki staðið fyrir heftingu sandfoks. En jeg hefi komið austur í Rangárvallasýslu, austur að Ægissíðu, og sjeð, að öðrum megin árinnar er alt grænt, en hinum megin auðn og sandur. Þá dylst engum, að það er vatnið, sem best heftir sandfokið. Ef maður kemur upp á Land og skoðar með athygli þær tilraunir, sem gjörðar hafa verið þar sandfokinu til heftingar, bæði með því að sá og girða, þá kemst maður skjótt að raun um, að girðingar eru þar aðalvörnin, en rennandi vatn eða þjettur, hávaxinn skógur, eina örugga vörnin.

Háttv. 1. kgk. (J. H.) heldur, að jeg mundi gjöra skógfræðing að spítalalækni, ef jeg væri spítalastjóri (Júlíus Havsteen : Það sagði jeg ekki. Jeg sagði skottulækni). Jæja. Jeg get fullvissað háttv. þm. um, að það væri engu vitlausara en láta skógfræðing fást við Flóaáveituna, eða hafnargarðana hjerna í Reykjavík.

Jeg get fullvissað þingdeildarmenn um það, að hjeraðsbúum þar eystra líkar stórilla, hve lítið hefir verið gjört af hálfu þeirra manna, er við sandgræðsluna eiga að fást, og ráð þeirra lítið dugað. Þeir munu því fagna þeirri breytingu, að umsjón sandgræðslunnar sje fengin í hendur Búnaðarfjelagi Íslands.