13.08.1914
Efri deild: 42. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

113. mál, kosningar til Alþingis

Karl Einarsson:

Jeg skal leyfa mjer að taka það fram, að nefndin hefir reynt að athuga frv., og jeg get ekki sagt eins og hv. framsögum., að jeg viti ekki hvort frumvarpið sje brúklegt eða ekki. Jeg er sannfærður um að frv., eins og við höfum lag til að því yrði breytt, er fullkomlega brúklegt.

Fyrri partur frumvarpsins er tekinn eftir núgildandi kosningalögum og aðeins breytt því, sem nauðsynlega þurfti að breyta. 7. gr., sem var um einmenningskjördæmin, feldi neðri deild og þurfti víða að breyta frv. í samræmi við það. Neðri deild hafði gjört það víða, en ekki alstaðar. Af þessu stafa margar af þeim breytingum, sem við leggjum til að gjörðar verði á frumvarpinu. Aðrar breytingar stafa af því, að nú er ekki altaf hægt að karlkenna þingmannaefnin, því verið getur, að kvenfólk bjóði sig fram, og verður þá að láta það halda sínu eðlilega kyni.

Hv. framsm. sagði að frumvarpinu hefði verið talsvert breytt í Nd. Þetta er rjett, þegar litið er til þess, að hætt var við að breyta kjördæmaskipuninni. Þá er enn fremur ein efnisbreyting, og hún er í 9. gr. Þar er búin til ný yfirkjörstjórn. Samkvæmt núgildandi kosningarlögum eru sýslumenn og bæjarfógetar altaf oddvitar yfirkjörstjórnanna, hvort sem þeir eiga heima í kjórdæminu eða ekki. Þessu hefir neðri deild breytt, og er það víst til að spara kostnað. Jeg álít þessa breytingu varhugaverða, og vildi breyta því, ef frv. stafaði ekki hætta af því, með því að jeg álít varhugavert að landsstjórnin skipi oddvita, svo sem ætlast er til að hún gjöri, ef sýslumaður eða bæjarfógeti á heima utan lögsagnarumdæmis. Það má að vísu segja, að sýslumenn og bæjarfógetar sjeu skipaðir af landsstjórninni, en þeir eru þó fastir embættismenn. Jeg álít, að sjerstaklega úrskurðum, sem kveðnir eru upp af yfirkjörstjórn, sje miklu ver borgið á þennan hátt en ella mundi. Þetta eru þær einu efnisbreytingar, sem neðri deild gjörði, því að aðrar breytingar, sem hún ætlaði að gjöra, voru feldar. Jeg get ekki sagt að þetta frumvarp sje illa atbugað, þar sem þetta er stjórnarfrumvarp, sem neðri deild hefir athugað vandlega og ekki fundið á því marga galla, og við höfum athugað það og varla fundið aðra galla en þá, að frv. hefir ekki verið breytt í samræmi við það, að 7. gr. var feld burt.

Jeg leyfi mjer því að leggja til, að frv. verði samþykt með þeim breytingum, sem við höfum lagt til að á því verði gjörðar.