20.07.1914
Efri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

38. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Jósef Björnsson:

Hv. 3. kgk. (Stgr. J.) kvað vafasamt, hvort það væri vilji kjósenda hjer í bæ, að fá breytingu þá á kosning borgarstjóra, sem frv. gjörir ráð fyrir. Jeg aftur á móti tel það ekki vafasamt. Fyrir síðasta þingi lá eindregin áskorun til þingsins frá þingmálafundi um að breyting þessi kæmist á, og í öðru lagi lá fyrir samþykkt bæjarstjórnar um, að hennar vilji væri, að allir kjósendur bæjarins kysu borgarstjóra. Þannig hefir málið verið samþykt beinlínis af kjósendum á þingmálafundi og óbeinlínis fyrir milligöngu bæjarstjórnarinnar. Fæ jeg ekki sjeð, hvað meira þurfi til þess að taka af vafa um það, hver sje vilji bæjarbúa í málinu. Nú er það tekið upp af nýju á þessu þingi, og ber það vott um, að þetta hefir ekki verið augnabliksósk bæjarbúa, heldur eindreginn staðfastur vilji þeirra, og get jeg ekki gert lítið úr honum. Þá hjelt hv. 3. kgk. (Stgr. J.) því fram, að með þessari, breytingu yrði borgarstjórakosningin gjörð pólitísk. Jeg skal ekki þrátta við hv. þm. (Stgr. J.) um það; sennilega má þar segja margt með og mót. En sje svo, að bæjarstjórnarkosningin sje í heild sinni ekki pólitísk, heldur sjeu hagsmunir bæjarins eingöngu hafðir fyrir augum við hana, þá er ólíklegt, að öðru vísi fari með borgarstjórakosninguna, sem hinir sömu kjósendur eiga að kjósa eftir frv. þessu. En stjórnist bæjarstjórnarkosningarnar meira eða minna af pólitík, þá sje jeg ekki betur en að lítil trygging sje fyrir því, að pólitík geti ekki komist að við borgarstjóravalið, þótt bæjarstjórnin ein kjósi hann. Mjer virðist ósk sú, sem liggur til grundvallar fyrir frv. þessu, vera svo eðlileg, að jeg tel það beinlínis óeðlilegt, að þingið setji sig á móti henni.