20.07.1914
Efri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

38. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Steingrímur Jónsson:

Hv. 2. þm. Skagf. (J. B). sagði að það hefði verið fullsannað í fyrra, að það væri eindreginn vilji meiri hluta kjósenda hjer í bæ, að fá að kjósa borgarstjóra sinn. Jeg verð enn að halda því fram, að þetta sje ekki allskostar rjett, og að jeg hafi á rjettara að standa, að það hafi ekki verið fullsannað og sje ekki fullsannað enn. Þess er að gæta, að fleiri mega taka þátt í kosningu borgarstjóra en alþingiskjósendur einir. Nú lá fyrir þinginu í fyrra aðeins áskorun frá þingmálafundi, en mál þetta er þannig varið, að allir atkvæðisbærir menn við borgarstjórakosningu hefðu átt að fá kost á að greiða atkvæði um það, en svo hefir ekki verið, og þar af leiðandi hefir þingið ekki vissu fyrir, hver sje vilji meiri hluta þessara manna í málinu. Líkt er að segja um bæjarstjórnina. Þegar málið var þar til umræðu, þá voru ekki nema 10 bæjarfulltrúar á fundi, og af þeim greiddu ekki nema 7 atkvæði með breytingunni, eða ekki fullur helmingur bæjarstjórnarinnar. Svona stóð málið í fyrra, og í ár veit jeg ekki til, að leitað hafi verið álits bæjarbúa um það, nema á fámennum þingmálafundi. Með þessu vildi jeg leiðrjetta fullyrðing hv. 2. þm. Skagf. (J, B.).