24.07.1914
Efri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

38. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Magnús Pjetursson:

Af því að hv. 6. kgk. þm. (G. B.) sagði að það væri sjaldgæft nú orðið, að heyra þingmenn láta skoðun sína í ljós á málefnum, er fyrir þinginu liggja, heldur væru það skoðanir kjósenda, sem látnar væru uppi, fæ jeg ekki varist því, að láta í ljós skoðun mína á þessu máli. Jeg get ekki ímyndað mjer að nokkrum detti í hug, að jeg sje að dekra við kjósendur mína í Strandasýslu, hvað sem jeg segi um þetta mál, því það láta þeir sig engu skifta.

Jeg hlustaði á þessa löngu ræðu hv. 6. kgk. þm. (G. B.) og jeg verð að játa það, að jeg sannfærðist ekki af henni og lenti ekki í neinu skynsemisstriði vegna þess, eins og hann komst að orði um sjálfan sig, hvort sem það stafar af því, að jeg hefi ekki nógu heilbrigða skynsemi, eins og hv. 6. kgk. þm. (G. B.) sagði um þá, sem ekki hefðu hans skoðun á málinu, það læt jeg ósagt. Flestar ástæður hv. 6. kgk. þm. (G. B.) hafði jeg lesið áður í þingtíðindunum.

Hv. 6. kgk. þm, sagði, að margir rosknir og ráðsettir bæjarbúar væru á máli sínu. Það mætti ætla, að þessir rosknu og ráðsettu menn væru alþingiskjósendur, en þeir hafa ekki komið fram á þingmálafundum hjer í bænum. Jeg leit í þingmálafundargjörðina úr Reykjavík í vor, og þar var samþykt áskorun til þingsins að semja frv. það, sem hjer liggur fyrir, með öllum atkv. gegn tveimur. Þá hafa þessir mörgu rosknu og ráðsettu menn annað tveggja verið á fundinum og ekki andmælt ályktuninni, eða þeir hafa ekki verið þar, og þá sýnir það ekki mikinn áhuga eða sannfæringu fyrir skoðun þeirra, ef þeir mæta ekki á fundi, þar sem þeir vita fyrir víst af gömlum vana, að þetta mál verði til umræðu.

Því hefir verið haldið fram, að engin sönnun væri fyrir því, að allir bæjarbúar óskuðu þessarar breytingar, þó allir eða flestir alþingiskjósendur óskuðu þess. En mjer finst harla ótrúlegt að þeir, sem kjósa til bæjarstjórnar, en ekki til Alþingis, sjeu svo gjörsamlega á öndverðum meið við alþingiskjósendurna, að ekki sje áreiðanlega rífur meiri hluti sömu skoðunar.

Jeg fæ ekki sjeð, að borgarstjórinn sje frjálsari eða óháðari, þótt hann sje kosinn af bæjarstjórn, heldur en ef hann væri kosinn af öllum kjósendum. Jeg hygg að pólitík geti enn síður komist að í bæjarstjórninni. Gæti vel verið, að einhver vildi vinna það til, til að komast í þá stöðu, að gjöra sig háðan einhverjum bæjarfulltrúanum, einum eða fleiri, ef á þeirra atkvæði riði, til þess að hann kæmist í stöðuna. En það álít jeg mjög áríðandi, að borgarstjóri sje alveg óháður bæjarstjórninni. Jeg er á þeirri skoðun, að það sje í þessu efni miklu hættulegra að bæjarstjórnin kjósi. Ef menn væru hræddir við að óvönduð meðul væru notuð, þá er hægra að hafa áhrif á tvo eða þrjá menn en mörg hundruð. Get jeg svo ekki verið að lengja umræður meira, þó það sje enn margt í ræðu hv. 6. kgk. (G. B.), sem mjer fanst ljett á metunum.