29.07.1914
Efri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

16. mál, beitutekja

Hákon Kristófersson:

Brtt. mín fer í þá átt, að felt verði úr frv. ákvæðið um það hvað netlög eigi að ná langt á sjó út. Mig furðar á því, að háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) skuli vera þessu mótfallinn, þar sem hann þó viðurkennir, að þetta ákvæði sje til í eldri lögum. Úr því að það er í veiðitilskipuninni frá 1849, þá þarf ekki að taka það inn í frumvarpið. En ef það fyr eða síðar kæmi til mála, að breyta veiðitilskipuninni, þá kynnu menn að vilja breyta þessu ákvæði, og þá væri betra að vera ekki að samþykkja það enn á nýjan leik í þessu frumvarpi.

Mjer þykir því ilt, ef háttvirtur framsögumaður ekki getur aðhylst breytingartillögu mína, því að jeg hygg það rjettlætingarverk að samþykkja hana.