25.07.1914
Efri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

19. mál, skipun prestakalla

Björn Þorláksson :

Þetta mál gekk til 2. umr. án þess að nokkuð væri á það minst. Þykir mjer það því vel við eiga, að skýra það nokkuð nú fyrir hv. d. Það stendur þannig á því, að frv. þetta er komið fram, að til þingsins hefir komið áskorun frá fríkirkjusöfnuði í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi um að þingið semji lög, er heimili honum að ganga inn í þjóðkirkjuna, er hann æski þess, sem sjerstakur söfnuður. Orsökin til þess, að fríkirkjusöfnuður þessi myndaðist, var sú, að fyrir nokkrum árum var bygð kirkja í Ólafsvík, sem liggur út á enda hinnar fornu Fróðársóknar. Út af þessu kom óánægja hjá ýmsum og við það myndaðist fríkirkjusöfnuður þessi, en ekki af því, að hann greindi í nokkru á við þjóðkirkjuna í kenningum eða kirkjusiðum.

Nú óskar söfnuður þessi að ganga aftur inn í þjóðkirkjuna; hefir verið leitað álits bæði biskups og hlutaðeigandi prests, og hafa báðir gefið meðmæli sín með því. Fríkirkjumenn hafa nú í hyggju, að koma sjer upp kirkju á Brimilsvöllum, sem liggja hjer um bil í miðjum Fróðárhreppi, og þá tekst af fyrir þeim það, sem óánægjunni olli, að þurfa að sækja kirkju í Ólafsvík. Það mundi leiða af því, ef fríkirkjusöfnuður þessi gengi inn í þjóðkirkjuna, að þá mundu prestgjöldin frá þeim renna inn í hinn almenna prestlaunasjóð, og hann því græða við það. Þegar auk þess liggur fyrir eindregin ósk frá 66 kjósendum um að mál þetta fái framgang, þá vona jeg að hv. d. taki því vel og samþykki, að það fái að ganga til 3. umr.